Yfirlýsingar forsætisráðherra um útsvarsmál í Reykjavík

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 15:44:42 (1427)

1998-11-30 15:44:42# 123. lþ. 29.1 fundur 115#B yfirlýsingar forsætisráðherra um útsvarsmál í Reykjavík# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:44]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur tjáð sig mjög skýrt um hugmyndir meiri hlutans í Reykjavík um hækkun útsvars og að sjálfsögðu hefur hæstv. forsrh. málfrelsi og ég geri ekki athugasemdir við það þó að hann hafi skoðun á þessu atriði. Hins vegar fellur sú skoðun ekki saman við mína að öllu leyti því að á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í síðustu viku ræddum við m.a. bága skuldastöðu sveitarfélaganna í landinu. Sveitarfélögin í landinu safna skuldum ár eftir ár og bæta stöðugt á eins og hv. 9. þm. Reykn. þekkir manna best.

Ef hallinn á sveitarfélögunum er settur í eina púllíu verður hann í ár að mati Þjóðhagsstofnunar yfir 2 milljarðar, voru 3 milljarðar í fyrra, voru 450 millj. á árinu 1996 og yfir 6 milljarðar á árinu 1995. Það sjá náttúrlega allir að svona getur ekki gengið og við hæstv. fjmrh. vöruðum alvarlega við þessari skuldasöfnun. Ég lét þess getið í ræðu minni að ég teldi eðlilegt að sveitarfélög sem hefðu borð fyrir báru í útsvarshækkunum fullnýttu útsvarið. Nú er það ekki tilfellið í Reykjavík að hugmyndir séu uppi um það að fullnýta útsvarið, 12,04%. Þeir eru með 11,99% eða eitthvað svoleiðis ef ég hef tekið rétt eftir. En ég tel ekkert óeðlilegt við það þó að útsvar sé hið sama í Reykjavík og í Kópavogi, a.m.k. sér landsbyggðarfólk ekki háskann af því að flytja í Kópavog fremur en til Reykjavíkur þó útsvarið hafi þar verið aðeins hærra.