Afkoma sveitarfélaga

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 15:58:30 (1436)

1998-11-30 15:58:30# 123. lþ. 29.1 fundur 116#B afkoma sveitarfélaga# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er auðvitað augljóst mál að hæstv. fjmrh. vill ekki fara nánar út í þessa sálma, þ.e. svara spurningunni: Samráð um hvað? Upp á hvaða samráð var verið að bjóða? Í beinu framhaldi af því að hæstv. ráðherra og hæstv. félmrh. lýstu sérstökum áhyggjum --- af hverju? Af hallarekstri sveitarfélaganna. Einhver hefði látið sér detta í hug að þar með væru skilaboðin: Við verðum að ná betri tökum á þeim rekstri, sveitarfélögin verða að komast út úr þeim hallarekstri --- og það eru bara tilteknar aðferðir til í því sambandi, það er vitað. En um hvað á þá samráðið að vera? Um hvað á samráðið að vera, hæstv. fjmrh., ef það er svona? Er þá bara einn kostur eftir? Að ríkið geti blómstrað með sinn efnahag og sveitarfélögin skeri síðan niður? Það er það sem hæstv. fjmrh. er í raun og veru að segja, að samráðið eigi að felast í því að sveitarfélögin eigi að skera niður þjónustu sína í samræmi við efnahagsmarkmið ríkisstjórnarinnar. Það er enginn annar botn í málflutningi hæstv. fjmrh. hér en sá fyrir utan svo aftur hitt, sem er auðvitað augljóst, að um er að ræða pólitíska hræsni. Þetta er ekkert annað en pólitísk hræsni hjá íhaldinu sem er að reyna að ná sér niðri á meiri hlutanum í Reykjavík.