Staðfesting samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 16:08:08 (1442)

1998-11-30 16:08:08# 123. lþ. 29.1 fundur 117#B staðfesting samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[16:08]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að hæstv. félmrh. er ekki utanrrh. íslenska lýðveldisins. Ef hann telur það vera í farsælum farvegi að standa ekki við alþjóðlegar skuldbindingar þá er hann að mínu mati á villigötum. Það er alveg ljóst að þegar ILO gerir sínar samþykktir þá er gert ráð fyrir því að þær fari í ákveðinn farveg í þjóðlöndunum. Það hefur alls staðar gerst í nágrannalöndunum. Hér hefur ríkisstjórnin kosið að leita allsherjarsamráðs --- og það kalla ég neitunarvald VSÍ, eða ef menn vilja, neitunarvald ASÍ í þeim efnum --- en láta ekki samþykktirnar koma til eðlilegrar þinglegrar afgreiðslu á Alþingi.

Þetta er ámælisvert, herra forseti, og það tekur varla nokkru tali að ræða málin á þeim grundvelli að segja að þetta sé í nokkuð góðu lagi. Það er miklu betra, herra forseti, að við hættum þátttöku í Alþjóðavinnumálastofnuninni ef við ætlum ekki að gera neitt með samþykktir hennar.