Bifreiðagjald, fjáröflun til vegagerðar og vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 17:10:38 (1452)

1998-11-30 17:10:38# 123. lþ. 29.4 fundur 279. mál: #A bifreiðagjald, fjáröflun til vegagerðar og vörugjald af ökutækjum# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[17:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur reyndar þegar svarað því að hluta í ræðu sinni sem ég ætlaði að spyrja um. Það varðar þá stöðu sem upp kom í kjölfar breytinga á þungaskattsinnheimtu síðasta vor. Ég held reyndar að flestir séu sammála um það að sú niðurstaða sem þar varð, þegar ákveðið var að hverfa frá því að taka skattinn í gegnum olíu og gera breytingar á þungaskattsinnheimtukerfinu og gjaldskrá í þungaskatti, hafi ekki orðið nógu góð. Breytingarnar voru að nokkru gerðar vegna athugasemda Samkeppnisstofnunar en mönnum yfirsást æðimargt bæði vegna tímaskorts og vegna þess að málin eru nokkuð flókin svo að ekki sé meira sagt, eins hæstv. ráðherra margnefndi hér. Þetta kom ákaflega mismunandi út fyrir ákveðna hópa.

Annars vegar eru þeir sem keyra mjög lítið og hreyfa tæki sín sjaldan, þeir fá í gegnum fastagjaldið óheyrilega hækkun. Þeir njóta ekki lækkunar á hinni almennu gjaldskrá í sama mæli og þeir sem keyra meira. Þeir sem aka hins vegar á allra lengstu leiðunum, aka hundruð þúsunda kílómetra á ári og fengu áður langmest út úr afsláttarkerfinu sem við lýði var, verða einnig fyrir gífurlegri hækkun vegna þess að á þeim leiðum er gjarnan um notkun aftanívagna að ræða og útkoman mörg hundruð þúsund króna hækkun fyrir þá sem aka á lengstu leiðunum. Það rúllar auðvitað beint út í vöruverðið og er niðurstaða sem ég held að engan veginn sé hægt að búa við.

Hér er um hækkaðan flutningskostnað að ræða og hærra vöruverð í afskekktustu byggðarlögum landsins þar sem það er hæst fyrir. Þess vegna verður að takast að finna þarna aðrar útfærslur. Ég vona svo að í beinu framhaldi af því að hæstv. ráðherra fái í hendur skýrslu um þetta mál, sem átti reyndar að liggja fyrir á morgun þó það verði einhverjum dögum seinna, komi frv. til lagfæringa á þessu máli. Ég vil láta það í ljós að mér finnst ekki koma til greina að lögfesta flatar hækkanir á þungaskattinum eins og hann leggur sig fyrr en botn er kominn í þetta mál, þ.e. útfærslu á þessum atriðum. Einhverja lagfæringu verður að finna á málefnum þeirra sem urðu fyrir hvað mestri íþyngingu með breytingunum síðasta vor.