Bifreiðagjald, fjáröflun til vegagerðar og vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 17:15:41 (1454)

1998-11-30 17:15:41# 123. lþ. 29.4 fundur 279. mál: #A bifreiðagjald, fjáröflun til vegagerðar og vörugjald af ökutækjum# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[17:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég viðurkenni alveg að afsláttarfyrirkomulagið eða öllu heldur sú framsetning sem var á afslættinum í gömlu þungaskattsinnheimtulögunum var óheppileg. Ég held að varla hafi verið við öðru að búast en Samkeppnisstofnun ræki hornin í það. Hins vegar finnst mér að menn megi heldur ekki verða of hræddir við að útfæra gjaldskrá sem hafi tiltekin markmið um dreifingu af þessu tagi og ég vek t.d. athygli á því að hér eru sett þök í innheimtu sem er mjög sambærilegs eðlis og t.d. um vörugjöld af bifreiðum þannig að ekki virðist vera alveg alltaf sama um hvað er að ræða. Það er sagt hér að þó skuli það aldrei vera lægra en 3.000 kr. og aldrei hærra en hvað það nú var, 36 þús. eða eitthvað því um líkt. Það úir og grúir af því í reglum um gjaldtöku af þessu tagi að sett eru þök og það er ekki talið ólöglegt. Ég nefni bara sem dæmi rúmmetragjald á skip í greiðslum til Þróunarsjóðs. Þar er sett þak til þess að stærstu skipin borgi ekki óendanlega mikið í gegnum rúmmetratölu heldur er visst á rúmmetra upp í viss stærðarmörk en svo er þak þar fyrir ofan.

Í raun og veru er spurningin um að finna einhverja sambærilega útfærslu sem hlífir lengstu akstursleiðunum við því að taka á sig óheyrilega skattheimtu. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það er ekki mjög algengt. Mikill minni hluti þessara tækja er nýttur þannig en í vissum tilvikum þegar verið er að reyna að nýta til fullnustu dýra fjárfestingu í langferðabifreiðum og tengivögnum með því t.d. að keyra kannski á vöktum með mannskap allan sólarhringinn, 2--3 ferðir í viku á Norðausturlandi eða vestur á firði og til höfuðborgarinnar, verður útkoman mikill akstur og alveg gífurlegur skattur miðað við að engir afslættir eða engin stiglækkandi gjaldskrá sé við lýði. Það er einhver útfærsla af því tagi sem menn verða að reyna að finna og það þýðir ekki að segja mér að það sé ekki lengur hægt að beita einhverjum stigum af þessu tagi. Ég veit ekki hvar menn væru þá staddir ef Samkeppnisstofnun kæmist upp með að dæma allt slíkt ólöglegt, þá verður væntanlega frekar skiptur tekjuskattur ólöglegur o.s.frv.