Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 17:47:47 (1458)

1998-11-30 17:47:47# 123. lþ. 29.5 fundur 219. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[17:47]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Svör hæstv. ráðherra valda mér vonbrigðum. Hæstv. ráðherra segir hér í ræðustól að þessi tillaga sé ekki raunhæf og að margt annað sé hægt að gera við peningana ef þeir væru á annað borð til staðar. Ég held að í þessu máli eins og svo mörgum öðrum sé þetta fyrst og fremst spurning um forgang. Það er bara einu sinni svo, hvernig sem við lítum á sviðið á þessu kjörtímabili, að fjársterkir aðilar og þeir sem eiga peningana hafa verið í forgangi hjá ríkisstjórninni en ekki láglaunafólk, öryrkjar, aldraðir og einstæðir foreldrar.

Ég benti á það, herra forseti, að þessi ríkisstjórn hefur haft 100 milljörðum meira úr að spila en síðasta ríkisstjórn. Ég er að tala um að það liggur fyrir í tölum sem ég upplýsi hér að góðærið hefur algerlega farið fram hjá þessum hópi, einstæðum foreldrum, eins og það hefur líka gert gagnvart öryrkjum sem hafa séð ástæðu til að standa hér fyrir utan á Austurvelli til að vekja athygli á bágum kjörum sínum. Mér finnst þetta því ekki vera spurning um peninga heldur hvernig við skiptum þeim peningum sem við höfum yfir að ráða. Þetta er spurning um forgang, hverjir eigi að hafa forgang. Ég verð að segja það, herra forseti, að um það er ekki spurning í mínum huga að þetta er einn af þeim láglaunahópum sem eiga að hafa forgang. Aðbúnaður barna einstæðra foreldra er oft og tíðum mjög slæmur og þessir foreldrar geta ekki veitt sínum börnum ýmislegt sem aðrir geta. Við upplifðum það í síðustu viku að ríkisstjórnin var að gefa fjármagnseigendum Fjárfestingarbankann og náttúrlega hefur komið fram að hann er miklu meira virði en sett var á hann. Þar er um að ræða tugi milljóna króna. Ég hef ekki heyrt hæstv. fjmrh. andmæla því þótt fjármagnseigendur hafi verið að græða hér á tá og fingri á eignum ríkissjóðs sem hægt var að selja á hærra verði, m.a. til að eiga upp í það að einstæðir foreldrar gætu nýtt ónýttan persónuafslátt barna sinna. Mér finnst þetta því vera spurning um forgang. Svör ráðherra valda mér miklum vonbrigðum og munu ugglaust valda miklum vonbrigðum í hópi einstæðra foreldra. Það er ég alveg viss um.