Málefni Stofnfisks

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:09:11 (1463)

1998-12-02 13:09:11# 123. lþ. 30.91 fundur 127#B málefni Stofnfisks# (umræður utan dagskrár), landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:09]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig ágætt að fá tækifæri til þess í hv. Alþingi að gera nokkra grein fyrir málsmeðferð varðandi einkavæðingu eða sölu á fyrirtækinu Stofnfiskur hf. sem hefur verið mikið til umræðu að undanförnu, m.a. í fjölmiðlum, og svara því aðeins sem fram kemur í máli hv. málshefjanda að framganga ráðherra í þessu einkavæðingarmáli sé með endemum og upplýsingaaðgengi sé tregt eða jafnvel bannað og alþingismenn fái ekki aðgang að þeim upplýsingum sem þeim ber.

Fyrst er rétt að rifja upp að í umræðunni um Stofnfisk og samning þann sem það fyrirtæki hefur gert formlega við landbrn. gætir nokkurs misskilnings þegar talað er um styrk sem þetta fyrirtæki fái á árabili sem samið er um upp á tugi og hundruð millj. Hins vegar er rétt að ríkið greiðir nú Stofnfiski endurgjald fyrir þjónustu samkvæmt samningi sem gerður hefur verið þar um. Fyrirtækið var stofnað árið 1991, nánar tiltekið 8. mars, og er í langstærstum hluta í eigu ríkisins eða 93--94%. Megintilgangur með stofnun félagsins var að hefja kynbætur á vatna- og sjávardýrum og var á þeim tíma gerður um það samningur, þá strax 1991, milli félagsins og landbrn. til fimm ára. Og til að tryggja mætti framhald þessa kynbótaverkefnis var gerður nýr samningur eða endurnýjaður 6. maí 1996 og síðan viðauki við hann síðar það ár sem hefur svo aftur verið endurskoðaður eins og ég kem aðeins nánar að hér á eftir.

Sú staðreynd að Stofnfiskur hafði breikkað starfsgrundvöll sinn og hætt verkefni, sem gefið hafði meginhluta teknanna, gaf tilefni til þess að breyta þurfti fyrirkomulagi laxakynbótaverkefnisins. Það var tekið mið af því í þeim framlögum til verkefnisins sem eru samkvæmt samningnum. Þau voru reyndar skorin niður, lækkuð um 20% frá því sem hafði verið í upphafi. Á samningstímanum lækkar síðan greiðslan fyrir þetta verkefni um 2% á ári út samningstímann. Það er m.a. gert vegna þess að við teljum að fyrirtækið hafi með sinni útvíkkuðu starfsemi betri rekstrarmöguleika og geti veitt þessa þjónustu fyrir minni fjármuni og það tryggi bæði betri rekstrargrundvöll fyrirtækisins svo og að það veiti einnig þá þjónustu sem það veitir ríkinu með þessum samningi fyrir lægra verð og styrki rekstur félagsins í heild. Þar af leiðandi var það niðurstaða ráðuneytisins að hefja þetta einkavæðingarferli með eðlilegum hætti og einkavæðingarnefnd skrifað erindi um það og hún beðin um að annast verkefnið. Til að rekja aðeins söguna um hvernig staðið hefur verið að málinu --- það hafa verið töluverð bréfaskipti hér á milli, m.a. vegna skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem hv. málshefjandi vitnar til --- þá var það 14. júlí sem ráðuneytinu barst aftur bréf frá einkavæðingarnefnd með fyrstu tillögunum um framkvæmd hlutafjáraukningarinnar og sölu á félaginu. Við hinkruðum með ákvörðun í því efni vegna þess að ráðuneytið vissi af því að Ríkisendurskoðun var að athuga málin og sú skýrsla eða úttekt sem Ríkisendurskoðun gerði var send ráðuneytinu og dags. 14. ágúst. Við sendum síðan þá skýrslu til stjórnar Stofnfisks þar sem hún er beðin að gera athugasemdir eða svara þeim athugasemdum sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og það bréf barst ráðuneytinu og var sent til Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðun svaraði því bréfi 14. september þar sem stofnunin gerir ekki frekari athugasemdir en ítrekar að hún telji að endurmeta þurfi félagið áður en til sölu eða hlutafjáraukningar komi og það framsendi ég síðan til einkavæðingarnefndar 24. september eða tíu dögum síðar með þessari athugasemd Ríkisendurskoðunar.

Svo ég fari hratt yfir sögu skrifaði einkavæðingarnefnd ráðuneytinu bréf 5. nóvember með tillögu að fyrirkomulagi að hlutafjáraukningu og sölu á félaginu og var í því bréfi lagt til að 6.--9. gr. kynbótasamningsins verði endurskoðaðar með tilliti til framkominnar gagnrýni. Það er síðan gert og undirrituð breyting á samningnum 17. nóvember þar sem bæði landbrn., fjmrn. og Stofnfiskur gerðu breytingar á samningnum þar sem gert er ráð fyrir strangari ákvæðum um varðveislu erfðaefnisins en hafði verið í hinum fyrri samningi þannig að ég tel að því hafi verið fullnægt.

Hinn 6. nóvember skrifar ráðuneytið Ríkisendurskoðun bréf aftur vegna erindis frá einkavæðingarnefnd um söluferlið þar sem við biðjum um að tekin séu af öll tvímæli um að Ríkisendurskoðun hafi ekki frekari athugasemdir við reikningsskil Stofnfisks að gera og það svar berst ráðuneytinu 16. nóvember í erindi og bréfi frá Ríkisendurskoðun, og ég held að rétt sé að lesa upp eina málsgrein úr því svari vegna þess að gerðar eru athugasemdir um hvað hafi staðið í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þar segir, með leyfi forseta, í svari Ríkisendurskoðunar frá 16. nóvember:

,,Til svars erindinu skal tekið fram að stofnunin telur að hún hafi fengið ásættanlegar upplýsingar og skýringar á reikningsskilum Stofnfisks hf. þann 30. júní 1998. Að mati Ríkisendurskoðunar gefa reikningsskilin glögga mynd af efnahag Stofnfisks og vísast að öðru leyti til áritunar löggilts endurskoðanda félagsins en hann starfar í umboði Ríkisendurskoðunar.``

Það er afdráttarlaust og tvímælalaust tekið fram af hálfu Ríkisendurskoðunar að hún hafi engar athugasemdir fram að færa.

Varðandi aðgengi að upplýsingum um málið þá verður það að koma fram að samkvæmt upplýsingalögunum er í raun ekki gerður munur á alþingismönnum og almenningi hvað upplýsingalögin varðar. Þegar um er að ræða efnisatriði sem talin eru viðskiptalegs eðlis og gætu skaðað hagsmuni félags, þá hefur ráðuneytið ekki talið rétt að afhenda viðkomandi gögn. Og beiðni Lúðvíks varðandi gögnin, sem búið var að neita öðrum sem hafði beðið um skýrslu (Forseti hringir.) Ríkisendurskoðunar, var neitað samkvæmt upplýsingalögunum. Sú synjun ráðuneytisins var staðfest af úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Staðfest er sú ákvörðun landbrn. að synja viðkomandi aðila um aðgang að skýrslu Ríkisendurskoðunar um Stofnfisk og önnur gögn er hana varða.`` Ég tel því að hér hafi fyrst og fremst verið um það að ræða að fara samkvæmt (Forseti hringir.) upplýsingalögunum og má vitna eða leita til skýrslu sem lögð hefur verið fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi um aðgengi almennings og hv. alþingismanna að gögnum um upplýsingar um hlutafélög sem varða hagsmuni eða viðskiptaleg málefni fyrirtækja. Ég tel því að hér hafi verið staðið rétt og eðlilega að málinu en er tilbúinn, hæstv. forseti, af því að tíminn er liðinn, að bæta kannski aðeins við síðar.

(Forseti (ÓE): Forseti minnir á ákvæði þingskapa um ávarp úr ræðustól.)