Málefni Stofnfisks

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:16:19 (1464)

1998-12-02 13:16:19# 123. lþ. 30.91 fundur 127#B málefni Stofnfisks# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:16]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hér er grafalvarlegt mál á ferðinni. Satt að segja er með ólíkindum að hæstv. ráðherra skuli bjóða upp á annan eins málflutning og hann gerði áðan. Að hann skuli rekja með dagsetningum og í upptalningu ákveðin bréfaskipti, skýrslur og minnisblöð og ljúka síðan máli sínu með því að vitna orðrétt í lokaskýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem hæstv. ráðherra virðist samkvæmt þeirra orða hljóðan vera hvítþveginn af öllum sökum.

Ég geri kröfu um það hér og nú að þeir pappírar sem snerta þetta mál verði afhentir í dag. Það er krafa mín í þessu sambandi. Mér dugir ekki að hæstv. ráðherra velji einstakar setningar úr þeim gögnum og pappírum sem fyrir liggja. Ég sætti mig ekki við það og ég trúi því ekki að hv. þm. sætti sig við að þeir séu afgreiddir þannig að þeim komi ekki við hvernig mál ganga í fyrirtæki sem þjóðin á, fyrirtæki sem hæstv. ráðherra ætlar að biðja hv. þm. um heimild til að selja á næstu dögum eða vikum. Er það svo að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn ætli að halda sig við þá tillögu sem er að finna í fjárlögum um að hv. þm. rétti upp hönd og veiti heimild til að selja þetta fyrirtæki án þess að fá að vita nokkurn skapaðan hlut um hvað þar er á seyði? Er það þannig sem hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn vill ganga um dyr í þessari virðulegu stofnun? Ég segi nei og ég árétta að ég óska eftir þessum upplýsingum, þessum pappírum, öllum sem einum. Ég hef trú á því og vona að hæstv. forseti veiti mér aðstoð við að sækja þennan eðlilega og sjálfsagða rétt minn. Flóknara er málið ekki.