Málefni Stofnfisks

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:20:21 (1466)

1998-12-02 13:20:21# 123. lþ. 30.91 fundur 127#B málefni Stofnfisks# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:20]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Síðast talaði þingmaður úr hv. fjárln. og mér sýnist einboðið að hún hljóti að taka þetta mál fyrir í einstökum atriðum af því að málið liggur á borði hennar.

Í öðru lagi vil ég segja varðandi þennan úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál, þar sem neitað er um aðgang að skýrslu Ríkisendurskoðunar, að ég tel að úrskurðurinn standist ekki vegna þess að um er að ræða Ríkisendurskoðun, sem er stofnun Alþingis, og ekki er hægt að neita þingmönnum um aðgang að slíkum gögnum, það er útilokað.

Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni um að forsetinn kanni málið mjög rækilega og grípi til þeirra aðgerða sem hann hefur í þessum efnum sem eru þær að útvega þingmönnum skjölin. Það er síðan mál sem þarf kannski að fara yfir í þessu tilviki af samkeppnisástæðum eða öðrum hversu mikið þingmennirnir láta frá sér af þessum upplýsingum. Það er svo allt annar hlutur. En það er algerlega óþolandi að þessi úrskurðarnefnd um upplýsingamál neiti alþingismanni um þessa skýrslu frá stofnun sem heyrir undir Alþingi. Það er ekki hægt. Herra forseti, það má ekki líða það. Það er vont fyrir þingið. Ef nokkur leið er að tryggja að þingið fái aðgang að málinu með góðu þá verður að gera það.