Málefni Stofnfisks

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:27:53 (1470)

1998-12-02 13:27:53# 123. lþ. 30.91 fundur 127#B málefni Stofnfisks# (umræður utan dagskrár), Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:27]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Í inngangsræðu minni fyrir umræðunni áðan lagði ég ríka áherslu á að hæstv. landbrh. upplýsti hvort starfsmenn ráðuneytisins hefðu varað hann við að halda áfram þessum einkavæðingarmálum vegna þess að ársreikningurinn fyrir árið 1997 væri hugsanlega ranglega færður og bæri ekki rétt um það hvernig staða fyrirtækisins væri. Í rauninni var þetta kjarni málsins, hvorki meira né minna. Þess í stað kemur hann með undirbúið svar að heiman, fjallar á engan hátt um það sem máli skiptir, ekki á nokkurn hátt, og leyfir sér síðan, virðulegi forseti, að lesa í þessari umræðu upp úr völdum gögnum sem alþingismanni hafði verið synjað um að fá.

Virðulegi forseti. Þess utan er best að upplýsa hæstv. ráðherra um að það sem hann las upp fjallaði um fjárhagsstöðu fyrirtækisins 30. júní 1998 en ekki 31. desember eins og ársreikningurinn gerir grein fyrir. Það er það sem kom fram í máli mínu, að ársreikningurinn fyrir árið 1997 sem er lokað þá sé rangur. Ég spurði að því hvort starfsmenn landbrn. hefðu varað hæstv. ráðherra við því að halda þessu áfram vegna þess að reikningurinn væri hugsanlega brot á landslögum. Engin svör, heldur vitnað til einhverra gagna sem hæstv. ráðherra kaus að velja úr en veitir Alþingi engar frekari skýringar á þessu máli.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að það er eitthvað mikið undir niðri í þessu máli sem ekki má koma upp á yfirborðið. Ég lýsi því yfir hér, virðulegi forseti, að þingflokkur jafnaðarmanna mun einfaldlega biðja um það að Ríkisendurskoðun taki þetta fyrirtæki Stofnfisk í gegn, geri á því ærlega úttekt og skili slíkri skýrslu inn til þingsins. Áður en það liggur fyrir, virðulegi forseti, kemur ekki til álita að mínu viti að Alþingi samþykki að heimila að þetta fyrirtæki verði einkavætt í skjóli myrkurs að hætti hæstv. landbrh. svo sem virðist vera meginregla í flestum þeim málum þar sem hann tekur sér fyrir hendur.