Málefni Stofnfisks

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:30:16 (1471)

1998-12-02 13:30:16# 123. lþ. 30.91 fundur 127#B málefni Stofnfisks# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:30]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að ég vil síst af öllu sýna Alþingi hroka og ég vona að þann tíma sem ég á eftir að vinna hér með öðrum hv. þingmönnum verði það ekki hlutskipti mitt. Ég vil ekki vinna þannig. Og ég biðst afsökunar á því hafi ég notað hér óvirðulegt ávarp áðan um hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Hafi mér orðið það á biðst ég afsökunar á því, það var heldur ekki vilji minn eða meining.

Það hefur engu verið haldið leyndu í þessu máli öðru en skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í sumar vegna þess að um hana hafði verið beðið af aðilum utan þings og niðurstaða ráðuneytisins var sú að afhenda hana ekki viðkomandi aðilum vegna þess að í henni væru málefni viðskiptalegs eðlis sem ekki ættu erindi þaðan út. Sú synjun ráðuneytisins var staðfest af úrskurðarnefnd um upplýsingamál, eins og ég hef upplýst. Það gengur jafnt yfir alla sem hafa beðið um þessar upplýsingar, þ.e. þessa einu skýrslu. Þar sitja alþingismenn því við sama borð hvort sem þeim líkar það betur eða verr, og þess vegna var beiðni hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar um þau gögn synjað.

Auðvitað eru ýmis önnur bréfaskipti og gögn í þessu máli, ég tala nú ekki um sjálfan samninginn og tillögur einkavæðingarnefndarinnar um hvernig standa eigi að hlutafjáraukningunni og söluferlinu, allt saman opið og aðgengilegt hverjum sem er og hv. fyrirspyrjanda en aðeins ekki þessi eina skýrsla.

Ég vil líka upplýsa að við höfum reyndar boðið upp á það --- sem er auðvitað aðgangur þingsins að upplýsingum sem eru trúnaðarupplýsingar --- að landbrh. eða viðkomandi ráðherra og kannski Ríkisendurskoðun líka geti gefið viðkomandi nefnd, t.d. landbn. þingsins í þessu tilviki, munnlega greinargerð í trúnaði um málefnin, þ.e. þær upplýsingar sem ekki eru taldar eiga að vera hjá almenningi eða samkeppnisaðilum. Og vissulega getur hæstv. Alþingi sjálfsagt skipað rannsóknarnefnd í málið ef það telur það svo stórt eða mikilvægt.

Ég tel að rétt og eðlilega hafi verið staðið að þessu einkavæðingarmáli. Vissulega hafa komið fram athugasemdir innan ráðuneytisins, eins og hv. þm. var að spyrja um. (LB: En minnisblaðið?) Minnisblað frá embættismönnum sem hafa beint því til mín að skoða málið betur. Það hef ég gert. Ég hef sent það endurtekið til Ríkisendurskoðunar, fengið svar frá Ríkisendurskoðun sem ég leyfði mér að lesa upp áðan. Ég tel að eðlilegt hafi verið að vitna til þess til að fá botn í viðhorf Ríkisendurskoðunar til málsins. En auðvitað óska ég eftir því að málið fái sem efnislegasta og besta málsmeðferð og reyndar er það svo að í fjárlögum ársins í ár er heimild til sölunnar.