Svör ráðherra í utandagskrárumræðu

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:33:53 (1472)

1998-12-02 13:33:53# 123. lþ. 30.92 fundur 129#B svör ráðherra í utandagskrárumræðu# (um fundarstjórn), LB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:33]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fjalla frekar um ræðu hæstv. ráðherra, það er ekki tilefni til þess, enda er þetta undir öðrum lið. En ég vil beina því til hæstv. forseta hvort honum þyki það eðlilegt eftir að þingmanni þeim sem hér stendur hafi verið neitað um upplýsingar, að hæstv. ráðherra komi síðan hér til þings og lesi upp það sem honum sýnist úr upplýsingum sem hann neitaði að afhenda og ráða því þannig alfarið sjálfur hvað fram kemur.

Er það eðlilegt að hafna beiðni þingmannsins? (Landbrh.: Það er ekki rétt að ...) Er það eðlilegt, virðulegur forseti, að hafna beiðni ... (Gripið fram í.) Vissulega. Hæstv. forseti átti að gera athugasemd hér áðan. Er það eðlilegt, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra neiti þingmönnum um aðgang en komi síðan og lesi upp úr gögnum það sem hann vill? Virðulegi forseti. Er ekki full ástæða til að gera athugasemd við þetta? Ég beini þessari fyrirspurn til forseta.