Áfengisauglýsingar

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:42:57 (1478)

1998-12-02 13:42:57# 123. lþ. 30.3 fundur 119. mál: #A áfengisauglýsingar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:42]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Í október sl. féll dómur í undirrétti þar sem Ölgerð Egils Skallagrímssonar var sýknuð af ákæru vegna áfengisauglýsinga. Dómurinn byggðist m.a. á því að vafi sé á að auglýsingabann standist stjórnarskrána. Verði þessi dómur staðfestur af Hæstarétti, en þangað hefur honum verið áfrýjað eftir því sem ég best veit, þá hefur það veruleg áhrif á heilbrigðisstefnu íslenskra stjórnvalda og vekur upp stórar spurningar um það hvernig hægt verði að vinna að áfengisvörnum hér á landi.

Þessi dómur vakti töluverða athygli og frá því hann birtist hefur verið mikið um auglýsingar, einkum á bjór, bæði í blöðum og á sjónvarpsstöðvunum. Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. dómsmrh.:

Hvernig hyggst ráðherra bregðast við nýlegum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli ákæruvaldsins gegn Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni vegna áfengisauglýsinga fyrirtækisins?