Áfengisauglýsingar

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:45:58 (1480)

1998-12-02 13:45:58# 123. lþ. 30.3 fundur 119. mál: #A áfengisauglýsingar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:45]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni vekur dómurinn upp margar spurningar um það hvernig hægt verði að standa að áfengisvörnum ef dómurinn verður staðfestur. Það vekur líka upp spurningar um það hvað sé að gerast á þessum vettvangi úti í Evrópu og í öðrum löndum sem við berum okkur saman við. Ég hef lesið að ef eitthvað er þá er til umræðu í Evrópu að banna áfengis- og tóbaksauglýsingar líkt og hér hefur verið. Þá vaknar spurningin: Verði það gert í Evrópu, hljótum við þá ekki að fylgja því fordæmi? Ef um er að ræða brot á tjáningarfrelsi samkvæmt stjórnarskrá þá erum við auðvitað í afar erfiðum málum hvað varðar varnir gegn m.a. áfengisdrykkju. En eðlilega hljótum við að bíða þess að Hæstiréttur felli sinn dóm og bregðast síðan við í ljósi hans.