Fráveitumál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:58:16 (1484)

1998-12-02 13:58:16# 123. lþ. 30.4 fundur 258. mál: #A fráveitumál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:58]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa hér ákaflega brýnu máli og hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég held að þetta sé eitt þeirra mála sem fylgjast verður afar vel með á næstunni. Það er ljóst að hér er um að ræða gríðarlega stóran útgjaldaþátt í rekstri og stofnframkvæmdum ýmissa sveitarfélaga. Í máli hæstv. ráðherra kom t.d. fram að kostnaðurinn hjá Hólmavík, þessu litla sveitarfélagi Hólmavík, er áætlaður um 60 millj. kr. Hér er um að ræða gífurlega háa tölu fyrir ekki stærra sveitarfélag.

Ég tel eðlilegt að menn reyni að átta sig á því hvernig skynsamlegast væri að hafa þann styrk sem sveitarfélögin fá nú til að standa undir þessum kostnaði og létta byrðar þeirra sveitarfélaga sem í mestum erfiðleikum eiga við að koma fráveitumálunum í lag. Við vitum að þetta er mjög mikilvægt viðfangsefni. Umhverfismálin eru að verða sífellt meira knýjandi í rekstri sveitarfélaga eins og öðrum rekstri. Því verður mjög horft til þess hvernig sveitarfélögin standa að því að vinna að úrbótum á fráveitumálum sínum og ljóst að sumum þeirra getur þetta orðið hreinlega fjárhagslega ofviða.