Fráveitumál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:02:05 (1486)

1998-12-02 14:02:05# 123. lþ. 30.4 fundur 258. mál: #A fráveitumál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:02]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er aðeins út af því sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að við værum kannski ekki alveg sammála um það hvort bæri að endurskoða lögin. Ég vil fyrst og fremst undirstrika það að lögin eiga að vera hvatning til sveitarfélaganna til að ráðast í þetta verkefni eins skjótt og mögulegt er. Hins vegar er líka ljóst af svari mínu áðan að sveitarfélögin hafa ekki verið í stakk búin til þess, ég hygg kannski fyrst og fremst fyrir það að undirbúningur hefur ekki verið það vel á veg kominn að menn hafi getað farið í þessi verkefni með fullum þunga eða þeim hraða sem kannski var gert ráð fyrir í upphafi þegar þessar 200 millj. voru afmarkaðar. Nú þykir sýnt að umsóknir um styrkgreiðslur muni fyllilega nema þeirri upphæð á næsta ári þannig að nú virðist verkefnið vera komið á fullan hraða.

Það er rétt, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda og hv. þm. Einari Guðfinnssyni, að þetta er mikill kostnaður fyrir sum sveitarfélög og þau eru mjög misjafnlega sett hvað þetta varðar, ég þori ekki að segja nánast óviðráðanlegur, en gríðarlega hátt hlutfall miðað við tekjur sveitarfélaganna víða. Þess vegna er sjálfsagt að skoða það hvernig málinu vindur fram á framkvæmdatímanum, meðan þetta 10 ára tímabil er að líða.

Niðurstaða mín var fyrst og fremst sú að rétt væri og nauðsynlegt að halda áfram þeim hvata sem felst í lögunum að reynt verði að hraða framkvæmdum og að stuðningurinn sé á þann hátt tímabundinn sem raun ber vitni. Þegar fram líður hins vegar og menn sjá hvað framkvæmdunum miðar, hve fljótt sveitarfélögin hafa tekið við sér og hvernig þessar 200 millj. á ári hafa nýst, þá kann að verða tilefni til að skoða málið nánar.