Samgöngur á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:21:50 (1493)

1998-12-02 14:21:50# 123. lþ. 30.6 fundur 210. mál: #A samgöngur á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:21]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans. Ég vil segja að ég er almennt sammála því að jarðgangaframkvæmdir séu settar í sérstakan framkvæmdaflokk. Það fé sem ákveðið hefur verið að verja til samgöngubóta eða vegaframkvæmda á næstu tólf árum er ekki það mikið að ef af því yrði tekið til þess að standa undir jarðagangaframkvæmdum sem þarf að ráðast í á nokkrum stöðum á landinu, þá mundi það bitna mjög harkalega á vegaframkvæmdum. Ég er ekki stuðningsmaður þess að ganga á þann lið.

Ég tek því undir það að litið verði á jarðgöng sem sjálfstæðan málaflokk í þessu efni og unnið að því að ná pólitískri samstöðu um að afla fjár til þessa verkefnis.

Það er ýmislegt hægt að gera á þeim tíma sem mun líða þar til málið kemst í höfn því ég trúi því að það muni verða að lokum. Ég vil þó segja að pólitíska ákvörðun um að ráðast í jarðgöng á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar verður að taka á næsta kjörtímabili, sér í lagi ef það mun verða sem að er stefnt og kjördæmaskipaninni breytt, þá er það að mínu mati algjörlega óhjákvæmilegt að pólitísk ákvörðun liggi fyrir áður en sú breyting nær fram að ganga.

Það er nokkuð hægt að gera til þess að bæta vegasamgöngur á milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða. Það er hægt að auka snjómokstur og það er hægt að styrkja og taka upp samgöngur á milli þessara svæða með flugi og með siglingum. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að skoða þá möguleika. Ég veit að nokkuð hefur verið gert í því að auka snjómokstur og lengja þannig opnunartímann. Ég hvet til þess að þetta verði frekar athugað en nú er.