Verðmunur á leigulínum um ljósleiðara

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:27:47 (1496)

1998-12-02 14:27:47# 123. lþ. 30.7 fundur 202. mál: #A verðmunur á leigulínum um ljósleiðara# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:27]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hér er um flókið mál að ræða sem tekur á tæknilegum atriðum og ógerningur er að svara ítarlega á svo skömmum tíma sem mér er hér ætlaður. Eigi að síður vil ég gera tilraun til þess.

Verðlagning á leigulínum hefur verið til umræðu vegna samkeppnisstöðu internetsfyrirtækja á landsbyggðinni. Rétt er að fram komi að þeir sem vilja tengjast internetinu eiga fleiri kosti en leigulínu.

Internetsþjónusta Landssímans er tvíþætt. Annars vegar er svonefnd gáttarþjónusta, internetsgátt símans, sem felst í því að síminn leigir fyrirtækjum aðgang að internetslínu sinni til Bandaríkjanna. Eitt annað fyrirtæki veitir sams konar þjónustu hér á landi, Intís. Hins vegar er almenn internetsþjónusta, síminn-internet, sem er aðallega veitt til heimila og smærri fyrirtækja. Rúmlega tíu önnur fyrirtæki veita þjónustu af þessu tagi.

Internetsgátt símans er staðsett í símstöðinni Múla og geta viðskiptavinir sem hyggjast veita almenna internetsþjónustu tengst henni með tvennum hætti, með leigulínu og með háhraðaneti. Helstur munur þessara tveggja tenginga felst í talsvert hærri kostnaði við leigulínur. Viðskiptavinur sem fær leigulínu til tölvusamskipta hefur alla flutningsgetu línunnar til ráðstöfunar, þ.e. ákveðinn hluti fjarskiptakerfisins er frátekinn fyrir þennan eina viðskiptavin og þessa einu tengingu.

Leigulínur eru í flestum tilfellum aðeins nýttar að hluta til. Viðskiptavinur greiðir hins vegar fyrir línuna án tillits til hver nýtingin er. Dæmi um þetta er tveggja megabita tenging milli Reykjavíkur og Akureyrar. Ef meðalnýting línunnar er 10% liggja 90% flutningsgetunnar ónotuð. Enginn annar getur heldur notað þessi 90%. Þetta er helsti ókostur leigulína til tölvusamskipta, þ.e. of mikill búnaður í fjarskiptakerfinu er bundinn miðað við nýtingu og kemur það óhjákvæmilega fram í verði.

[14:30]

Hinn kosturinn er háhraðanet en það er kerfi sem er sérstaklega hannað til tölvusamskipta og samnýtir leigulínur í þeim tilgangi. Í flestum tilfellum hentar háhraðanetið jafn vel til tölvusamskipta og um leigulínu væri að ræða. Háhraðanetið byggir á tveimur þáttum, tengistöðvum --- hnútum í símstöðvum víða um land --- og leigulínum sem tengja hnútana saman. Háhraðanetið er sjálfstæð rekstrareining innan Landssímans og tekur á leigu línur af grunnneti fyrirtækisins. Stærsti kostnaðarliður í rekstri þess eru leigulínur og ræður því að miklu leyti hver gjaldskrá þess er. Í háhraðanetinu er t.d. tveggja megabita leigulína milli Reykjavíkur og hnúts á Akureyri. Allir notendur netsins og þó sérstaklega fyrirtæki á Akureyri samnýta þessa línu. Það er þessi samnýting sem endurspeglast í gjaldskrá háhraðanetsins sem er mun lægri en gjaldskrá leigulína.

Viðskiptavinir símans geta tengst internetsgáttinni með leigulínum eða um háhraðanetið. Kostnaðarliðir þessara tenginga er eftirfarandi:

Leigulínur, þ.e. notendalína, yfirleitt 2 til 3 km, langlína, internetsgátt.

Háhraðanet, þ.e. notendalína, langlína getur komið til viðbótar, háhraðanet og internetsgátt.

Kostnaðarmunur þessara tveggja aðferða liggur fyrst og fremst í langlínu eða háhraðaneti og á sérstaklega við um tengingar úti á landi. Tengingar við internetsgátt Intís eru með sama hætti. Fljótlega eftir að síminn hóf rekstur gáttar sinnar tók Intís þá stefnu að taka ekki við viðskiptavinum með tengingu um háhraðanetið. Í upphafi voru forsvarsmenn Intís hins vegar ánægðir með það framtak sem síminn sýndi með uppbyggingu netsins. Landsíminn telur tengingu um háhraðanetið ekki síði að gæðum en tengingu með leigulínu.

Landssíminn gerir ráð fyrir að taka í notkun á fyrri hluta næsta árs svokallað APM-net sem hefur margfalda afkastagetu á við núverandi kerfi. Gera má ráð fyrir að stór hluti alls gagnaflutnings, þar á meðal internetsumferð, fari um APM-netið. Gert er ráð fyrir að gjaldtaka fyrir afnot af APM-netinu verði ekki fjarlægðarháð fremur en gjaldtaka fyrir háhraðanetið.

Þó nokkur fyrirtæki bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi veita eins þjónustu og Landssíminn veitir með síminn-internet. Fyrir þessa þjónustu er notaður sérstakur innhringibúnaður. Búnaður þessi hefur tvær tengingar við símkerfið og internetsgáttina. Aðgangur að þjónustunni fer þannig fram að heimilistölvan tengist ofangreindum búnaði með tengingu um símkerfið og er í engu frábrugðið venjulegu símtali nema að símtalið er tölvutal. Eftir að tengingin er komin á geta internetssamskipti átt sér stað um það samband sem búnaðurinn hefur við internetsgáttina. Internetsþjónusta annarra fyrirtækja er byggð upp á sama hátt, þ.e. rekstur innhringibúnaðar og tenging, annaðhvort við internetsgátt símans í Múlastöð eða internetsgátt Intís í Tæknigarði. Þar sem landið er eitt gjaldsvæði breytir engu fyrir einstaka notendur hvar á landinu þessi fyrirtæki eru með tilliti til símtenginga en ýmsir valkostir eru fyrir hendi vegna tenginga við internetsgáttir eins og skýrt var að framan.

Ég hef beðið um að tekin séu dæmi um hvað það muni kosta að reka fyrirtæki t.d. á Höfn í Hornafirði og í Breiðholtshverfi í Reykjavík. Þá kemur í ljós að ef tengt er með leigulínu nemur kostnaður samtals á mánuði ef miðað er við 256 kílóbit 484.867 kr., en ef háhraðanet er notað 183.127 kr. Í Breiðholtshverfi í Reykjavík er sambærilegur kostnaður með leigulínu 186.517, með notendalínu sem er 5 km, en ef notendalínan er 2 km og notað er háhraðanet 183.127 kr. Kostnaður er sá hinn sami hvar sem slíkt fyrirtæki er rekið á landinu, eins og ég skil það, ef háhraðnetið er notað.