Verðmunur á leigulínum um ljósleiðara

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:37:48 (1500)

1998-12-02 14:37:48# 123. lþ. 30.7 fundur 202. mál: #A verðmunur á leigulínum um ljósleiðara# fsp. (til munnl.) frá samgrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:37]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hér er vissulega hreyft brýnu máli og hv. þm. Jón Kristjánsson á heiður skilið fyrir að halda því vakandi hér á Alþingi. Það kom fram í máli hv. þm. að um þetta sé fjallað í tillögu til byggðaáætlunar og var helst að skilja að ef sú tillaga yrði samþykkt gerðust hlutirnir nánast af sjálfu sér. Bingó! Jöfnuður kominn á. Þetta er ekki svo einfalt, herra forseti, eins og við vitum og þess vegna er mjög brýnt að þeirri spurningu sem hér er varpað fram sé svarað, þ.e. hvort aðgerðir séu á döfinni til að jafna verðmun milli landshluta. Þær aðgerðir þarf að fara í, ekki síst ef tillaga til byggðaáætlunar á að hafa þau áhrif sem menn binda vonir við. Mér fannst, herra forseti, ráðherra fyrst og fremst gera okkur grein fyrir möguleikum tækninnar og verðmismun eftir því hvaða tækni menn teldu sig þurfa eða vildu nota en það kæmi ekki nógu skýrlega fram hvort aðgerðir væru yfir höfuð í gangi til að jafna þann mun sem menn hafa bent réttilega á að er svo brýnt að verði jafnaður.