Verðmunur á leigulínum um ljósleiðara

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:39:12 (1501)

1998-12-02 14:39:12# 123. lþ. 30.7 fundur 202. mál: #A verðmunur á leigulínum um ljósleiðara# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JónK
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:39]

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin. Hann svaraði því til hvaða tæknilegir möguleikar væru á því að jafna þennan kostnað. Mér finnst mergurinn málsins að möguleikar tækninnar, sem ég hef hvorki tíma né þekkingu til að fara út í á þessum vettvangi, verði notaðir til að jafna kostnaðinn, en hér er um að ræða myndflutning. Þegar er búið að jafna símakostnað og annan kostnað, en hér er um að ræða hina nýju möguleika á myndflutningi. Sem dæmi má t.d. nefna fréttasendingar utan af landsbyggðinni og möguleika landsbyggðarinnar til að gera sig gildandi á ýmsum sviðum þar sem þessi nýja tækni er notuð. Ég fagna því auðvitað og vissi að byggðaáætlunin, sem er til umræðu og í nefnd núna á Alþingi, geri ráð fyrir þessu og það er viljayfirlýsing þingsins þá að þetta verði gert. Mér finnst það undirstrika vilja þingsins í þessum efnum og allt ber að sama brunni að þessu verður að hrinda í framkvæmd og nota til þess þá tæknilegu möguleika sem til eru en eins og kom fram í svari hæstv. samgrh. eru þeir vissulega fyrir hendi.