Áætlanir í raforkumálum

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:57:13 (1507)

1998-12-02 14:57:13# 123. lþ. 30.13 fundur 200. mál: #A áætlanir í raforkumálum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:57]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Að undanförnu hefur orðið töluvert mikil umræða um þá fólksfækkun sem hefur átt sér stað á ýmsum landsvæðum og þá sérstaklega í dreifbýlinu og talið er að um 13% þjóðarinnar búi í sveitarfélögum þar sem sjá megi hættumerki hvað varðar þróun í búsetu. Þessu hefur að hluta til verið svarað með aukinni kröfu um stefnu stjórnvalda í byggðamálum og nýsköpun í atvinnulífi í dreifbýlinu.

Í nýlokinni kjördæmaviku þar sem þingmenn ferðuðust um kjördæmin og ræddu við sveitarstjórnarmenn og þá sem hafa staðið fyrir nýsköpun í atvinnulífi kom það ítrekað fram t.d. á Suðurlandi og fleiri landsvæðum að grunnforsendan fyrir nýsköpun í atvinnulífi, sérstaklega í dreifbýlinu og þar sem bændur sem hafa búið við mjög mikinn samdrátt í sinni atvinnugrein og hafa leitast við að koma með einhverja nýsköpun inn í atvinnulífið, að grunnforsendurnar vanti fyrir því að hægt sé að byggja upp öflugt atvinnulíf á landsbyggðinni. Það vantar þriggja fasa rafmagn. Rafmagnið tekur ekki við því aukna álagi sem nýsköpun í atvinnulífi fylgir. Rafmagnið þolir heldur ekki álagið sem fylgir þeirri kröfu sem gerð er um hagræðingu og nýsköpun innan landbúnaðarins. Þar eru menn að tækjavæða og þurfa að leggja í verulegan kostnað vegna þess að þriggja fasa rafmagn vantar í sveitum landsins.

Við heyrðum hér áðan rætt m.a. um ekki nógu góða þjónustu símkerfisins og ljósleiðara. Helstu athugasemdir sem gerðar hafa verið eru þó varðandi þrífösunina á rafmagni. Einu sinni var í gangi stefna og samningur við Orkusjóð, stefna sem nú þegar er búið að framkvæma, þar sem Orkusjóður lagði ákveðna fjárhæð ár hvert í endurnýjun á raflögnum þannig að um þriggja fasa rafmagn yrði að ræða. Nú hefur mér skilist að um sé að ræða nýjar greiðslur í Orkusjóð sem ekki var áður gert ráð fyrir, upp á fjórða hundrað millj. kr. sem Landsvirkjun er að greiða í Orkusjóð samkvæmt upplýsingum sem komu fram fyrir stuttu. Skuldabréf þar sem um er að ræða greiðslur fyrir verk sem unnin voru fyrir þó nokkrum árum. Það væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hvort þessir peningar eigi að renna í þau verkefni sem áður voru hjá Orkusjóði, t.d. endurnýjun rafmagns.

Á þskj. 218 ber ég fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. ráðherra:

,,Hvaða svæði landsins eru enn án þriggja fasa rafmagns? Hver er staðan hjá Rafmagnsveitum ríkisins í hverju umdæmi fyrir sig?

Hve miklu fé hefur verið veitt til þessa verkefnis síðustu fimm ár og hve stórum áfanga hafa þær fjárveitingar skilað, sundurliðað eftir árum?

Hver er áætluð heildarfjárþörf til þess að ljúka verkefninu?

Hefur iðnaðarráðuneytið mótað stefnu í þessum málum og sett ákveðin tímamörk? Ef svo er, hver er stefnan og hvenær er áætlað að verkinu ljúki? Hverjar eru áætlaðar árlegar fjárveitingar til þess?``