Kynferðislegt ofbeldi gagnvart þroskaheftum

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 15:18:42 (1513)

1998-12-02 15:18:42# 123. lþ. 30.14 fundur 187. mál: #A kynferðislegt ofbeldi gagnvart þroskaheftum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[15:18]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við þessari fyrirspurn. Ég fagna því að tekið skuli á þessum málum. Það er gott að heyra að Þroskahjálp ætli að taka að sér kynfræðslu fyrir þroskahefta. Ég tel að það þurfi einnig að fara í fleira en að dreifa efni, það þurfi að koma á námskeiðum fyrir bæði aðstandendur og þroskahefta sjálfa, varðandi kynfræðsluna og kynlíf þeirra. Ég hefði viljað heyra að farin væru af stað námskeið fyrir starfsfólk á stofnunum fyrir þroskahefta um þessi mál.

Það er mjög mikilvægt að það verði gerð könnun eða rannsókn, eins og hópurinn leggur til, á kynferðislegu ofbeldi gagnvart þessum hópi. Það þarf að kanna ástandið í þessum málum. Ég óttast að það sé mun alvarlegra en marga grunar. Við þurfum því að gera rannsókn eins og þessi starfshópur leggur til og ég vonast til að ráðherra beiti sér fyrir því að sú vinna fari í gang.

Mér fannst alvarlegt að heyra að af 300 manns sem komu á neyðarmóttökuna væru 16 þroskaheftir. Við vitum auðvitað, eins og fram hefur komið, að þeir sem lenda í þessu fara ekki allir á neyðarmóttökuna, síst þeir sem eru í þessum hópi. Ég virði líka þá niðurstöðu að fara ekki með þessa skýrslu í fjölmiðla. Auðvitað eru þetta mjög viðkvæm mál en eins og fram kom hjá ráðherra er þetta opinbert plagg og menn geta skoðað það. Nefndin á þakkir skildar fyrir þessa vinnu.

Hvað varðar réttargæsluna þá á maður eftir að sjá frv. sem kemur í þingið um þau mál. Ég þakka fyrir það sem gert hefur verið en kalla eftir því að gerð verði rannsókn, haldin námskeið fyrir starfsfólk og kynfræðslu fyrir þroskahefta komið á sem fyrst.