Framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynja

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 15:29:35 (1517)

1998-12-02 15:29:35# 123. lþ. 30.15 fundur 263. mál: #A framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynja# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[15:29]

Fyrirspyrjandi (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin sem valda mér þó verulegum vonbrigðum. Það kostar ekki mikið að koma í framkvæmd þessum verkefnum. Samt sem áður hefur það ekki verið gert. Umburðarbréf hefur ekki verið sent til ráðuneyta og ríkisstofnana vegna verkefnis I þó ekki geti það kostað mjög mikið. Þar er vísað í væntanlegt frv. til þess að fá lagastoð fyrir málinu. Í gildi eru jafnréttislög og framkvæmdaáætlun sem Alþingi hefur samþykkt, samt er vísað í einhver væntanleg jafnréttislög til þess að geta framkvæmt liðinn.

[15:30]

Varðandi lið 2 er það sama upp á teningnum. Í þessum lið framkvæmdaáætlunarinnar er talað um að nefnd þá, er skipa á til að kanna hvort opinber stefnumörkun taki mið af jafnrétti kynjanna, eigi að skipa eigi síðar en 1. maí 1998. Nú á að biðja stýrihópinn um ráð um hvernig eigi að standa að þeirri nefndarskipan. Ég get ekki verið ánægð með þessi svör, hæstv. forseti.

Í þriðja lagi, varðandi jafnrétti hjá ríkisstofnunum, væri fróðlegt að vita hversu margir forstöðumenn hafa fengið tilmæli þess efnis að þeim beri að virða jafnrétti innan stofnana sinna eins og skýrt er tekið fram í þessum lið, en enn er vísað í stýrihópinn.

Herra forseti. Ég tel að hér sé um mjög mikilvæg verkefni að ræða og var ánægð að sjá þau inni í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar. En það þarf að fylgja þeim eftir. Það er ekki nóg að hafa fögur orð á blaði. Ég tel mér skylt að veita ríkisstjórninni aðhald í þeim efnum og geri það með þessum fyrirspurnum. Ég vona svo sannarlega að framkvæmdin verði betri í framtíðinni en nú þegar. Það hefði ekki þurft að kosta mikið fé að hefja þessi verkefni eins og ráð er fyrir gert í tillögunum.