Efnahagsleg völd kvenna og karla

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 15:34:03 (1519)

1998-12-02 15:34:03# 123. lþ. 30.16 fundur 264. mál: #A efnahagsleg völd kvenna og karla# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[15:34]

Fyrirspyrjandi (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára er í kafla II fjallað um verkefni ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála, verkefni sem ekki fjalla undir einstök ráðuneyti heldur ríkisstjórnina í heild. Þar er í 4. lið talað um að skipa skuli nefnd sem leggja muni fyrir ríkisstjórn tillögu að rannsóknarverkefni um efnahagsleg völd kvenna og karla og hvar þau liggja í íslensku samfélagi. Því ber sannarlega að fagna að ríkisstjórnin hafi metnað til þess að setja inn í framkvæmdaáætlun ákvæði af þessu tagi.

Í Noregi hefur slík greining átt sér stað. Nú er önnur nefndin af því tagi að hefja störf og mikið rætt um að þar verði hugað betur að því en fyrr að greina frá sjónarmiði kynjanna nákvæmlega. Áður var þetta almenn valdagreiningarnefnd. Þess má geta að nýlega var fjallað um málið í fréttabréfi frá Rannsóknarstofu í kvennafræðum frá Óslóarháskóla og mikill spenningur er fyrir starfi nefndarinnar.

Í Svíþjóð hefur þegar verið gerð úttekt á skiptingu efnahagslegra valda og efnahagslegra verðmæta á milli kvenna og karla. Rannsóknin þar var gífurlega umfangsmikil og stóð yfir í fjögur ár. Að henni komu tugir vísindamanna úr ólíkum fögum og árangurinn er 13 skýrslur og lokaniðurstöður birtust nýlega í skýrslu SOU 1998 nr. 8 undir yfirskriftinni ,,Þinn er mátturinn --- Mýtan um hið rökræna. Atvinnulíf og jafnréttið í Svíþjóð.``

Af þessu tilefni hef ég borið fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. félmrh.:

,,Hefur ríkisstjórnin skipað nefnd sem geri tillögu að ,,rannsóknaverkefni um efnahagsleg völd kvenna og karla og hvar þau liggja í íslensku þjóðfélagi`` í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára til að ná fram jafnrétti kynjanna (sbr. II. kafla)? Sé svo, hvernig er hún skipuð? Ef svarið er nei, hvenær verður það gert? Hver er tilgangur fyrirhugaðs verkefnis? Verður tekið mið af sambærilegum rannsóknum á Norðurlöndum? Hve miklu fjármagni verður varið til verkefnisins á næsta ári?``