Niðurfelling virðisaukaskatts af innlendri handverksframleiðslu

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 15:48:55 (1525)

1998-12-02 15:48:55# 123. lþ. 30.17 fundur 256. mál: #A niðurfelling virðisaukaskatts af innlendri handverksframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[15:48]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég svaraði fyrirspurn á síðasta vori um þetta efni eða náskylt efni og leyfi mér að vísa til þess sem þar kemur fram. Í aðalatriðum er svarið það að auðvitað hefur það komið til skoðunar og verið rætt í tengslum við virðisaukaskattskerfið að gera þar ákveðnar breytingar á. En niðurstaðan er ævinlega sú að ekki sé rétt að gera það, hvorki að því er varðar þessa starfsemi, innlenda handverksframleiðslu, eða aðra þætti sem menn iðulega bera fyrir brjósti.

Staðreyndin er sú að það getur verið álitamál fyrir framleiðandann hvort það er betra fyrir hann að vera innan eða utan kerfisins. Menn hafa vissar undanþágur ef menn eru með litla veltu í þessu eins og hv. fyrirspyrjandi gat um. Það mun vera um 220 þúsund um þessar mundir. Þeir sem eru inni í kerfinu, t.d. í sambandi við búrekstur, fá ákveðinn frádrátt á innskatti eins og kunnugt er. Á móti kemur að skattur er lagður á þeirra verðlagningu. Svo má ekki gleyma því að ef þessar vörur eru seldar í gegnum verslanir til erlendra aðila eða úr landi þá er hægt að fá þennan útskatt sem leggst ofan á vöruverðið dreginn frá þannig að það á ekki að skemma fyrir samkeppnisstöðunni.

Hins vegar er sá möguleiki líka fyrir hendi að ef litlir aðilar vilja komast inn í virðisaukaskattskerfið, sem eru þar fyrir utan og fá ekki innskatt sinn frádreginn, þá er það heimilt ef þeir reka atvinnustarfsemi í hagnaðarskyni og þá þurfa þeir ekki að gera upp skattinn nema einu sinni á ári. Þarna eru því ákveðnir möguleikar fyrir hendi fyrir þá sem vilja geta hagnýtt sér innskattsmöguleikana í þessu kerfi.

Auðvitað er æskilegt að í atvinnustarfsemi af þessum toga, sem er ekki kannski ýkja umfangsmikil eða flókin, séu reglur einfaldar og auðvelt fyrir fólk að standa skil á opinberum gjöldum og ég hygg að reynt hafi verið að koma til móts við þessa aðila í því sambandi.

Til hvaða annarra aðgerða væri mögulegt að grípa til þess að gera alla sem framleiða slíkar vörur jafnsetta? Það er náskylt því sem ég hef verið að segja. Menn geta reynt að koma sér inn í kerfið ef þeir telja sér það hagfelldara til þess að geta notið innskatts. En ekki er við því að búast að það geti gengið upp að allir þessir aðilar geti fengið útskattinn niðurfelldan og það er ekki heldur í samræmi við markmið virðisaukaskattskerfisins um að hafa sem mest samræmi á framleiðsluvörum óháð því hvar og hvernig vörur eru búnar til.

Þetta er það sem um málið er að segja. Það er ekki sjálfgefið að það sé til hagsbóta fyrir þessa aðila að vera fyrir utan kerfið og bera sinn eigin innskatt, en svo kann að vera í einhverjum tilfellum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, herra forseti, en vísa til þess sem ég svaraði á Alþingi í maímánuði sl. um þetta efni.