Niðurfelling virðisaukaskatts af innlendri handverksframleiðslu

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 15:52:52 (1526)

1998-12-02 15:52:52# 123. lþ. 30.17 fundur 256. mál: #A niðurfelling virðisaukaskatts af innlendri handverksframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[15:52]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mér var ljóst að þetta mál hefur áður verið á dagskrá en ástæða þess að ég kaus að leggja þessa fyrirspurn aftur fyrir var sú að mér er kunnugt um að eftir þessu hefur verið leitað sérstaklega og það hefur verið til umræðu og skoðunar meðal handverkshópa sem m.a. hafa snúið sér til þingmanna sinna kjördæma og leitað úrlausna í þessum efnum.

Auðvitað er hægt að líta á þetta frá ýmsum hliðum eins og hæstv. ráðherra gerði í svörum sínum og ljóst er að það þarf ekki endilega að vera einhliða neikvætt fyrir aðila að borga þennan skatt, í einhverjum mæli kemur þá frádráttur á móti og öfugt fyrir þá sem ekki eru með uppgjör, þeir geta þá ekki nýtt sér frádrátt. Engu að síður er það mat þess fólks sem í þessari framleiðslu stendur að núverandi ástand sé óheppilegt og það virki letjandi.

Eitt af því sem kemur upp er að þessir ólíkt settu aðilar gagnvart skattinum starfa gjarnan hlið við hlið og selja sína vöru á sömu mörkuðum, á einum sameiginlegum vettvangi. Einnig eru menn kannski misjafnlega --- ég veit ekki hvort við megum orða það svo --- misjafnlega vel að sér eða misjafnlega útfarnir í því að nýta sér þá frádráttarmöguleika og komast að einhverju leyti undan skattinum hvað það snertir.

Mér er ekki ljóst í hve miklum mæli endurgreiðsla á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna tekur til innkaupa á þess konar varningi. Ég efast satt best að segja um að það sé í miklum mæli þegar komið er niður í mjög lágar upphæðir sem keyptar eru á mörkuðum hér og þar um landið eða jafnvel af framleiðendum beint. Þó þekki ég það ekki nákvæmlega.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að láta ekki staðar numið hér. Ég er sannfærður um að þörf er á því að fara betur yfir skattalega meðferð þessara mála og þeirra gráu svæða sem þarna eru á ferðinni. Það er ekki í öllum tilvikum mikill munur á því sem flokkað er sem listaverk og er þar af leiðandi undanþegið skattinum í dag, og ýmiss konar vandaðri framleiðslu á gráa svæðinu þar nálægt þegar um handverk, handverksiðnað og annað því um líkt er að ræða. Helst af öllu hefði ég viljað sjá að hæstv. fjmrh. bryti í blað hvað varðar menningarlega viðleitni í fjmrn. og tæki þar upp jákvæðari stefnu gagnvart því að styðja við menningarstarfsemi í landinu og iðnað af þessu tagi með því að beita skattkerfinu pósitíft í þeim efnum.