Niðurfelling virðisaukaskatts af innlendri handverksframleiðslu

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 15:55:28 (1527)

1998-12-02 15:55:28# 123. lþ. 30.17 fundur 256. mál: #A niðurfelling virðisaukaskatts af innlendri handverksframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[15:55]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég tek undir það sem ræðumaður sagði um nauðsyn þess að þetta kerfi sé einfalt og ekki þannig úr garði gert að það geri fólki verulega erfitt fyrir sem vill standa í skilum með sín gjöld, að það þvælist ekki fyrir fólki að því leyti til. Það er alveg hárrétt að við eigum ekki að búa það þannig úr garði að fólk fælist það að ganga rétt frá sínum uppgjörum.

Ég vildi gjarnan bæta því við sem ég sagði áðan, og kem að því leyti til móts við sjónarmið fyrirspyrjanda, að það er ætlun mín að setja á laggirnar á næstunni sérstaka nefnd til að yfirfara allt virðisaukaskattskerfið, þar með talinn eftirlitsþáttinn, þar með talda skattskylduna og þar með talda fjölda annarra þátta sem menn hafa verið að ræða að undanförnu og sem bent hefur verið á að gæti verið þörf á að endurbæta. Þetta skattkerfi hefur nú þjónað okkur í u.þ.b. átta ár. Það er flókið og þar er margt álitaefnið. Ég hef hugsað mér að farið verði í þessa athugun, og hún verði nokkuð umfangsmikil, af færustu sérfræðingum og þá verður þetta eitt af því sem kemur til skoðunar, bæði varðandi sjálfa gripina og svo hins vegar ýmislegt sem lýtur að framkvæmdinni og þeim mörkum sem um er að ræða að því er varðar lágmarksveltu og margt fleira sem full þörf er að líta á. Ekki bara vegna þessara aðila og þeirrar ágætu starfsemi sem þetta fólk stundar heldur líka vegna fjölmargra annarra atriða sem upp hafa komið á undanförnum átta árum.