Tilkynningarskylda íslenskra skipa

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 10:32:48 (1529)

1998-12-03 10:32:48# 123. lþ. 32.1 fundur 260. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[10:32]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til að breytt verði ákvæðum laga um tilkynningarskyldu íslenskra skipa, nr. 40/1977, en tilgangur þess er að gera nauðsynlegar breytingar á lögunum vegna sjálfvirks tilkynningarkerfis skipa sem áformað er að taka í notkun 1. febrúar 1999. Aðdragandi þess að koma á sjálfvirku tilkynningarkerfi fyrir íslensk skip á sér langa sögu, en handvirk tilkynningarskylda íslenskra skipa hefur verið við lýði í rúm tuttugu ár. Samkvæmt gildandi lögum skulu öll skip önnur en varðskip tilkynna brottför úr höfn, komu í höfn og staðsetningu a.m.k. einu sinni á sólarhring en Slysavarnafélag Íslands hefur farið með yfirstjórn tilkynningarskyldunnar og eftirlitsmiðstöðvarinnar í Reykjavík.

Frá árinu 1983 hefur Alþingi nánast árlega veitt fé til undirbúnings við sjálfvirkt tilkynningarkerfi. Málið hefur verið til umfjöllunar í samgrn. samfellt um nokkurt skeið og gerðar úttektir og skýrslur um fyrirkomulag á framkvæmd verkefnisins. Unnið hefur verið að málinu í samvinnu við marga aðila, m.a. hagsmunaaðila, Háskóla Íslands, Póst- og símamálastofnun og Slysavarnafélag Íslands.

Hinn 14. maí 1994 gerði samgrn. samkomulag við Póst- og símamálastofnun og Slysavarnafélag Íslands um að vinna að uppsetningu sjálfvirks tilkynningarkerfis fyrir íslensk skip. Sömu aðilum og séð höfðu um handvirka tilkynningarkerfið í tæp tuttugu ár var falið að sjálfvirknivæða það. Slysavarnafélaginu var falið að annast rekstur tilkynningarskyldunnar og reka eftirlitsmiðstöð sem tekur á móti sjálfvirkum tilkynningum en Póst- og símamálastofnun var falið að byggja upp og reka fjarskiptakerfi í landi.

Í október 1997 fól samgrh. Póst- og fjarskiptastofnun að annast framkvæmd á sjálfvirku tilkynningarkerfi og semja við Póst og síma hf., nú Landssíma Íslands hf., um uppbyggingu fjarskiptahluta þess.

Þann 5. mars 1998 var undirritaður samningur milli Póst- og fjarskiptastofnunar og Landssímans sem kveður á um að Landssíminn setji upp og starfræki móttöku og dreifileiðir fyrir sjálfvirkt tilkynningarkerfi á landi. Sama dag var gert samkomulag um framkvæmd sjálfvirka tilkynningarskyldu milli samgrh., Landssímans, Landssambands smábátaeigenda, Landssambands ísl. útvegsmanna, Póst- og fjarskiptastofnunar og Slysavarnafélags Íslands. Samkomulag þetta er birt sem fylgiskjal með frv.

Í reglugerð um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa, nr. 295/1994, er miðað við að öll skip séu búin tækjum til sjálfvirkrar tilkynningarskyldu frá og með 1. febrúar 1999. Um framkvæmd og útfærslu sjálfvirks tilkynningarkerfis vísa ég til greinargerðar með frv.

Ég vil að lokum lýsa þeirri von minni að þetta frv. nái fram að ganga á Alþingi þar sem hér er um að ræða mikið öryggismál fyrir áhafnir á íslenskum fiskiskipum. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um efni frv. en legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.