Tilkynningarskylda íslenskra skipa

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 10:46:47 (1536)

1998-12-03 10:46:47# 123. lþ. 32.1 fundur 260. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[10:46]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra segir að ákvæði um að handvirkt eftirlit verði í þrjú ár samhliða sjálfvirkri tilkynningarskyldu en ég vil alls ekki meina að það geti leyst strandstöðvarnar af hólmi. Ég sé alls ekki neitt samhengi þar á milli. Eins og ég sagði áðan get ég ekki séð að sjálfvirk tilkynningarskylda geti nokkurn tíma komið í staðinn fyrir þá handvirku eða sólarhringseftirlit þegar neyðarástand skapast, skip eru í neyð, kalla þarf eftir aðstoð, leiðbeina við björgun og aðstoða sjófarendur og björgunarsveitir samhliða. Það er útilokað að sjálfvirkt senditæki geti komið í staðinn fyrir þessa handvirku stýringu. (Gripið fram í: Ekki algjörlega.) Það er alveg útilokað að það geti komið algjörlega í staðinn fyrir þetta. Ég held, eins og ég sagði áðan, að það hljóti að vera nauðsynlegt að ræða þetta samhliða í nefndinni. En auðvitað er þetta til bóta. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra. Þessi sjálfvirki tilkynningarsendibúnaður sem er um borð í skipunum er mjög til bóta. Ég ætla alls ekkert að gera lítið úr því. Ég vil bara vara við því aftur að ef menn ímynda sér að hægt sé að leggja niður strandstöðvar og eftirlit sem þeim fylgir þá held ég að það gangi ekki upp.