Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 11:40:54 (1553)

1998-12-03 11:40:54# 123. lþ. 32.2 fundur 281. mál: #A leigubifreiðar# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[11:40]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra taki það ekki illa upp þó að ég spyrji hér einnar spurningar sem ég hefði gjarnan viljað fá svar við áður en þetta mál fer til nefndarinnar.

Hvernig er það með þessa grein, mun maður sem orðið hefur gjaldþrota og sækir um leyfi til leigubílaaksturs eða atvinnuleyfi á leigubifreið fá leyfið? Ég hef fengið nokkur dæmi inn á mitt borð um að menn sem hafa lent í gjaldþroti fái ekki leyfi til leigubílaaksturs, eins og lögin eru í dag. Ég hefði því gjarnan viljað að það kæmi fram í umræðunni hjá hæstv. ráðherra hvort þetta orðalag á greininni breyti einhverju þar um. Eða mun þetta tilvik sem nefnt er í athugasemdum við lagagreinina, þar sem talað er um að í undantekningartilvikum geti stjórnvöld metið hvort umsækjandi fái útgefið leyfi þótt hann hafi brotið af sér, hvort undir það falli að gjaldaþrotamenn geti fengið undanþágu og fengið atvinnuleyfi. Það er mikilvægt að mínu mati að það komi fram við 1. umr. þessa máls.