Skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 11:45:55 (1557)

1998-12-03 11:45:55# 123. lþ. 32.3 fundur 282. mál: #A skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum# frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[11:45]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þessu frv. er ætlað að leysa af hólmi lög um skipulag á fólksflutningum með landferðabifreiðum, nr. 53/1987, með síðari breytingum, en þau eru mun eldri en ártalið segir til um.

Miklar breytingar hafa orðið á umhverfi þessarar greinar. Hópferðaakstur hefur aukist gríðarlega á Íslandi og aðild landsins að Evrópska efnahagssvæðinu hefur kallað á töluverðar breytingar á lögum og reglum er gilda um atvinnubifreiðar og akstur þeirra. Enda þótt þegar hafi verið brugðist við þessu að hluta hafa þó enn orðið breytingar innan regluverks Evrópusambandsins sem kalla á endurskoðun þessara laga. Af því tilefni er nauðsynlegt að taka á öðrum þáttum en mál þetta varðar og var því ákveðið að endurskoða lögin í heild. Með samningu frv. var haft náið samráð við þá aðila sem mestra hagsmuna hafa að gæta.

Meginbreytingin snýr að útgáfu hópferðaleyfa. Hér er lagt til að Vegagerðin taki að sér útgáfu þeirra auk eftirlits með einstökum þáttum. Með þessari breytingu er málskot aðila sem mál kann að varða til samgrn. sem æðra stjórnvalds tryggt. Með þessu skapast mun skilvirkari og öruggari stjórnsýslumeðferð en áður. Jafnframt er gert ráð fyrir því að skipulagsnefnd fólksflutninga verði lögð niður.

Þá eru lagðar til töluverðar breytingar á útgáfu leyfa auk þess sem skilyrði til að stunda fólksflutninga á landi eru hert nokkuð. Í stað þess að umsækjandi sýni fram á að hann hafi óflekkað mannorð skal hann uppfylla ákveðin skilyrði sem eru tilgreind nánar í frv. Er það í samræmi við hugtakanotkun Evrópusambandsins um góðan orðstír en ekki þótti heppilegt að setja það hugtak í frv. þar sem það er ekki þekkt í íslenskri löggjöf. Þá er einnig gerð krafa um að umsækjendur fari á námskeið áður en þeir fá úthlutað og er þá á hendi Vegagerðarinnar að sjá til þess að slík námskeið verði haldin. Einnig er gerð krafa um fullnægjandi fjárhagsstöðu og skal það skilyrði útfært nánar í reglugerð.

Þessi ákvæði um skilyrði leyfis eru að miklum hluta komin til vegna reglna Evrópusambandsins um aðgang að starfsgrein farmflytjenda og farþegaflytjenda á landi og um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum og öðrum vitnisburði um formlega menntun í innanlands- og millilandaflutningum. Í viðauka með reglugerðinni er einnig tíundað námsefni á því námskeiði sem umsækjendum um leyfi samkvæmt þessu frumvarpi er gert að taka.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.