Skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 11:49:09 (1558)

1998-12-03 11:49:09# 123. lþ. 32.3 fundur 282. mál: #A skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[11:49]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það frv. til laga um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum sem hér er mælt fyrir er samið að því er fram kemur í athugasemdum í samgrn. í samráði við Félag hópferðaleyfishafa og Félag sérleyfishafa. Hæstv. ráðherra mælti fyrir frv., ekki í löngu máli heyrðist mér, en telur væntanlega að þetta mál sé einfalt í sniðum og þarfnist ekki mikilla útlistana til viðbótar við það sem fram kemur í greinargerð eða athugasemdum með frv. Ég held að fyllilega sé þörf á því að endurskoða löggjöf og fyrirkomulag á þessu sviði, ég get tekið undir það, en mér sýnist að ýmis ákvæði í þessu frv. þyrftu að fá góða skoðun í hv. samgn. Ég vil leyfa mér að nefna örfá atriði til athugunar varðandi málið.

Mér finnst ekki koma nógu skýrt fram þar sem vikið er að í greinargerð með málinu hverjar séu í raun reglur Evrópusambandsins sem rammi af málið. Ég hefði talið nauðsynlegt vegna þessa máls að hæstv. samgrh. miðlaði til þingnefndar skýrum upplýsingum um það hvaða forskrift það er í rauninni sem EES-samningurinn leggur í sambandi við málið. Vikið er að því í athugasemdum með frv. að slíkar reglur séu til staðar og það er mér kunnugt. Tekið er tillit til þeirra í sambandi við lagabreytingar og mér finnst að það skorti á að gerð sé skýr grein fyrir því hverjar takmarkanirnar eru sem Evrópurétturinn setur í málinu. Hvað er það sem snertir þetta frv. sérstaklega sem verið er að breyta vegna þess að slík forskrift liggi fyrir. Það er mjög óljóst og verður ekki lesið út úr þessum athugasemdum, ekki a.m.k. í fljótu bragði. Ég skal viðurkenna, virðulegur forseti, að ég tók mér ekki tíma fyrr en í morgun til þess aðeins að renna yfir málið og athugasemdirnar. Ég hef því ekki aflað mér neinna frekari upplýsinga en lesa má út úr frv. sjálfu og athugasemdum við það.

Mér sýnist að ein meginbreytingin út frá stjórnsýslu frá því sem verið hefur sé sú að verið sé að greina skýrar á milli leyfa og leyfisveitinga og að leggja leyfisveitingar í hendur Vegagerð ríkisins, leyfisveitingar fyrir fólksflutninga með hópferðabifreiðum til þess að opna síðan fyrir kærumöguleika til æðra stjórnvalds, sem sagt ráðuneytisins. Sjálfsagt er ekki galið að reyna að greina þarna á milli. Það er ekki heppilegt að úthlutun sé á æðsta stjórnstigi og kæruleiðir í rauninni. Trúlegast er Vegagerðin ekki óeðlilegur aðili til þess að fjalla um slíkt. Það er auðvitað verkefni fyrir góðan starfsmann eftir atvikum að hafa reiður á þessum málum og fjalla um það. Hvort hann situr í ráðuneyti eða í stofnun á vegum ráðuneytisins er ekki stórmál út af fyrir sig en getur verið skynsamlegt út frá málsmeðferð og stjórnsýslu.

Sitthvað vekur athygli í framsetningu á þessu frv. eins og að í orðskýringum er talin þörf á því að skilgreina hvað eru óreglubundnir flutningar, þegar búið er að draga fram skýringar á leyfisþáttunum og þá er tekið fram í orðskýringum að óreglubundnir flutningar eru aðrir flutningar en reglubundnir. Mér finnst þetta kannski dálítið smásmugulegt en það kann að vera að rök séu fyrir því að setja í lagatexta. Það má finna fleira í ætt við þetta í frv., t.d. í 6. gr., svo að dæmi sé tekið. ,,Ekkert leyfi þarf til flutnings í eigin þágu.`` Ég skil þetta svo, hæstv. ráðherra, að ég þurfi ekki að sækja um sérstakt leyfi fyrir einkabifreið til þess að flytja sjálfan mig eða nákomna í einkabifreið án gjaldtöku en tekið er skýrt fram að ekkert leyfi þurfi til flutnings í eigin þágu.

Þetta minnir á þekkt svar sem við sem stöldruðum við í Menntaskólanum á Akureyri könnumst við um ágætan lærimeistara sem eitt sinn var nemandi og kom upp í bandorminum í náttúrufræði. (Gripið fram í: Einum bandormi.) Í bandorminum, já, bandorminum í náttúrufræði og hafði ekki mikið fram að færa í munnlegu prófi því að þarna voru stunduð góðu heilli munnleg próf í þessari merku stofnun, MA. En lét þess getið um leið og hann vék úr stólnum og það mun hafa verið það fyrsta og eina sem nemandinn sagði: ,,Það sakar ekki að geta þess að kvikindið andar með húðinni.`` Auðvitað bjargaði það honum. Þetta kom mér í hug í tengslum við þessa ágætu texta. Það sakar ekki að geta þess að ekkert leyfi þarf til flutnings í eigin þágu.

Af þessum toga er í athugasemdum er fjallað um leyfi með þessum hætti, með leyfi forseta:

,,Þá eru skilyrði þess að fá leyfi til að stunda fólksflutninga á landi hert nokkuð. Í stað þess að umsækjandi sýni fram á að hann hafi óflekkað mannorð skal hann uppfylla ákveðin skilyrði sem nánar eru tilgreind í frumvarpinu. Er það í samræmi við hugtakanotkun Evrópusambandsins um góðan orðstír (good reputation) en ekki þótti heppilegt að setja þetta hugtak í frumvarpið þar sem það er ekki þekkt í íslenskri löggjöf. Hér er um mun strangari skilyrði að ræða en um getur í skilgreiningu á óflekkuðu mannorði og á það mun betur við það starfssvið sem fjallað er um hér.``

Ég náði ekki alveg samhengingu á milli þessara málsgreina en hitt að ekki sé talið rétt að setja hugtakið ,,góður orðstír`` í íslenska löggjöf í frv. vegna þess að það sé ekki í lögum þó að það samræmist e.t.v., nú skal ég ekki skera úr. Það er kannski til sérstök skilgreining um það hvað er good reputation og mér skilst það raunar, en ég hefði ekki verið svona spar á að nota orðin ,,góður orðstír`` nema þau stangist þá ljóslega á við hugtakaskilgreiningu Evrópusambandsins á good reputation en ég þarf ekki að hafa upp fyrir hæstv. forseta eða þingheimi stöðu hugtaksins orðstír í íslensku máli. Á það sínar rætur nánast aftur í forneskju og er hverju mannsbarni þekkt.

En aftur til frv. sjálfs. Í sérleyfum er greint á milli þriggja þátta. Í fyrsta lagi er raunar sérstök lagagrein, 3. gr., um útgáfu leyfa sem er almennt um að leyfi Vegagerðarinnar þarf til að stunda fólksflutninga í atvinnuskyni samkvæmt lögum þessum. Leyfið skal gilda í fimm ár og vera óframseljanlegt. Síðan er sérstakur kafli um sérleyfi, fyrst almenn skilgreining og síðan um einkaleyfi, sérstaka reglubundna flutninga, aðra reglubundna flutninga þannig að þetta er margþrepa. Varðandi útgáfu sérleyfa skal leita umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Heimilt er að setja nánari skilyrði o.s.frv.

[12:00]

Ég staldraði aðeins við Samband ísl. sveitarfélaga sem er hið merkasta félag. Er ekki ástæða til að líta sér ögn nær hugsanlega í sambandi við sérleyfi, t.d. á fleiri sveitarfélög eða þau sem eru í viðkomandi landshluta ef um staðbundið leyfi eða hugsanlega sérleyfisleið er að ræða? Nú rakst ég ekki á það í textanum að nein skilgreining væri í rauninni á sérleyfisleiðum en ég skil það svo að hugsunin sé að veita sérleyfi á tilteknum leiðum. Mér sýndist þetta fyrst og fremst koma fram í sambandi við einkaleyfi sem svo er kallað og það er annar þáttur málsins. Þó stendur í 4. gr., með leyfi forseta:

,,Þeir sérleyfishafar, sem hafa haft sérleyfi áður, skulu að jafnaði sitja fyrir um endurveitingu sérleyfa á viðkomandi leiðum ef þeir aðilar sækja um þau og fá meðmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga.``

Þetta er heldur óljóst orðalag, finnst mér. Það þyrfti að athuga það. Spurningin er hvort ekki er átt við þá aðila sem hafa haft sérleyfi áður á viðkomandi leið, og þá er væntanlega verið að hugsa um þá leið sem viðkomandi hafði sérleyfi á áður. Þetta er lítið atriði en ég hnaut um það við yfirlestur. Svo lýkur 4. gr. með þessu orðalagi, með leyfi forseta:

,,Í sérleyfisakstri er sérleyfishafa heimilt að nota bifreiðar sem rúma 3--8 farþega.``

Þá vaknar spurning: Er þá ekki heimilt að nota bifreiðar sem flytja fleiri eða færri en 3--8? Mér finnst að það megi álykta af þessum orðum að þetta sé svigrúmið. ,,Í sérleyfisakstri er sérleyfishafa heimilt að nota bifreiðar sem rúma 3--8 farþega.`` Ég sé ekki að það séu tilgreind fyrr í greininni nein stærðarmörk. Er það meiningin að þetta sérleyfi gildi um akstur bifreiða sem rúma 3--8 farþega? Þetta er auðvitað einnig framsetningaratriði en ef þetta væri efnislega skilningurinn þá er málið náttúrlega nokkuð stórt, þ.e. ef á að takmarka það við þetta. En ég geri auðvitað ekki ráð fyrir að það sé hugmyndin.

Síðan kemur þetta einkaleyfi sem svo er kallað. Það er leyfi sveitarfélaga til að fá sérleyfi og stunda akstur á sínum vegum, standa fyrir slíkum rekstri. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Nú ákveður sveitarstjórn að taka í sínar hendur rekstur reglubundinna flutninga innan síns lögsagnarumdæmis þar sem áður hefur verið sérleyfi og er þá skylt að veita sveitarstjórn einkaleyfi þegar tímabil sérleyfishafa er útrunnið, enda hafi sveitarstjórn sótt um það eigi síðar en sex mánuðum áður en sérleyfið fellur úr gildi ...``

Þetta gildir um leyfisveitingu til sveitarfélaga innan sinna marka. Ef ég les rétt í textann þá geta sveitarstjórnir ýtt út, ef þeim svo býður við að horfa, sérleyfishafa sem hefur stundað slíkan akstur. Það þurfa bara að líða sex mánuðir og þá verður viðkomandi að pakka saman. Þannig skil ég þennan texta.

,,Vegagerðinni [er] heimilt að binda leyfið því skilyrði að einkaleyfishafinn skuli skuldbundinn til að kaupa þær fasteignir og bifreiðar sem notaðar höfðu verið til reksturs á viðkomandi leið og teljast nauðsynlegar á verði sem samkomulag næst um ...``

Allt finnst mér þetta dálítið sérstakt, að það sé verið að veita sveitarfélögum heimild á svo ákvarðandi hátt. Þetta kann að varða almenningssamgöngur, en ég skil ekki málið þannig að þetta séu í rauninni almenningssamgöngur. Eru það Strætisvagnar Reykjavíkur sem hér er verið að tala um eða hvað? Ég sé ekki að tekið sé á því. En það mætti halda að þetta ætti kannski við um það. Spyr sá sem ekki veit. Svo segir í lok þessarar einkaleyfisgreinar, með leyfi forseta:

,,Öðrum en einkaleyfishafanum er óheimilt nema með samþykki hans að flytja um einkaleyfissvæðið aðra farþega en þá sem teknir eru upp utan þess og þá sem teknir eru upp innan svæðisins til flutnings út fyrir það.``

Þetta er, virðulegi forseti, texti í lagi eins og maður segir og ég leyfi mér að endurtaka hann því hugsunin kann að hafa farið fram hjá mönnun, með leyfi forseta:

,,Öðrum en einkaleyfishafanum er óheimilt nema með samþykki hans að flytja um einkaleyfissvæðið aðra farþega en þá sem teknir eru upp utan þess og þá sem teknir eru upp innan svæðisins til flutnings út fyrir það.``

Ég held að þetta hljóti að vera skothelt. Svo er hér um sérstaka reglubundna flutninga á ákveðnum hópi farþega o.s.frv. En varðandi einkaleyfisákvæði og sveitarfélögin þá vaknar sú spurning í mínum huga hvort það sé einboðið út frá hinum heilögu samkeppnisreglum að þetta gangi upp. Ég veit það ekki, e.t.v. á grundvelli svona lagasetningar, en það er spurning.

Í III. kafla eru ýmis ágæt ákvæði eins og um óreglubundna flutninga og um akstur sérútbúinna bifreiða. Það er auðvitað full þörf á því að fylgjast með því og gera kröfur til þess. Það koma í rauninni mörg atriði upp í hugann sem ekki snerta beinlínis þessa löggjöf hér eða þetta frv. sem varða flutning á fólki til fjalla og m.a. um jökla landsins. Það er eitt af þeim atriðum sem ég hafði raunar haft í hyggju að vekja máls á í þinginu og leyfi mér að nefna það hér að ég held að mikil þörf sé á því að fara yfir þau efni í ljósi fenginnar reynslu, þ.e. út frá öryggissjónarmiðum.

Virðulegur forseti. Tími minn er á þrotum. Margt fleira hefði verið ástæða til að nefna í þessu merka máli þar sem opnað er fyrir reglugerðarsetningu hæstv. ráðherra og gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 1999 svo að menn mega hafa hraðann á við að vinna í þessu máli.

En að lokum allra síðast, virðulegur forseti, efst á bls. 6. í athugasemdum er vikið að setningu á reglugerð, ákveðnum atriðum sem innleidd voru í íslenska löggjöf með reglugerð og ég vildi biðja hæstv. samgrh. að bregðast alveg sérstaklega við því hvort hæstv. ráðherra hafi sett íslensk lög með reglugerð.