Skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 12:10:06 (1559)

1998-12-03 12:10:06# 123. lþ. 32.3 fundur 282. mál: #A skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum# frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[12:10]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Mér þótti vænt um að hv. þm. skyldi rifja upp gamla gamansögu af Brynleifi Tobíassyni og séra Jóni Péturssyni prepon sem síðar var á Kálfafellsstað. Ég hygg að ég hafi misheyrt það að hv. þm. hafi talið að þessi orðaskipti hafi átt sér stað fyrir norðan. Auðvitað voru þeir í Lærða skólanum hér fyrir sunnan, þeir heiðursmenn, þegar þeir voru að lesa undir náttúrufræðiprófið og má kannski líka ímynda sér að Brynleifur Tobíasson hafi haft á ýmsu meiri áhuga en bandorminum. Á hinn bóginn var séra Jón Pétursson þeim gáfum gæddur að hann mundi það sem hann las --- eða hvort það var faðir hans, Pétur Jónsson. Ég þarf nú að rifja upp hvenær þessir karlar voru fæddir til þess að ég þori að fullyrða um það hvor feðga var að lesa með Brynleifi Tobíassyni. En báðir voru þeir prestar á Kálfafellsstað þannig að það breytir engu um það atriði svo við getum sagt að það hafi verið síðar prestur á Kálfafellsstað og Brynleifur Tobíasson sem áttu þessi orðaskipti, sem er kannski kjarni málsins.

Mér þótti margt áhugavert sem hv. þm. kom fram með hér og gott er að fá svo ítarlegar ræður um svo mikið efni og ég skal þegar í stað heita hv. þm. því að gera ráðstafanir til þess að samgn. geti fengið sem gleggstar upplýsingar um hvaða reglur Evrópusambandsins eða á hinu Evrópska efnahagssvæði aframmi þetta mál. Það sem auðvitað rekur á eftir er að nauðsynlegt er fyrir þá sem hafa slíkan rekstur með höndum hér á landi að þeir hafi fullan rétt til þess að aka um nálæg lönd, að ekki sé dregið í efa að þeir fullnægi öllum þeim skilyrðum sem þar eru sett. Að því lýtur auðvitað þessi flókna aðferð sem höfð er um skilyrði leyfis.

Nú er það svo um góðan orðstír að það er auðvitað í hugum okkar Íslendinga mjög tært orðasamband og okkur þykir vænt um að hugsa okkur það að einhver sem manni er nákominn hafi góðan orðstír. Hugsanlega má vera að rétt sé að setja það í lög. En við athugun málsins þótti það ekki. Hvort vera megi að það sé vegna þess að lögfræðingum sé ekki treystandi og kannski ekki dómurum til að skilja almennilega hvað í því hugtaki felst skal ég ekki segja en vel má taka það til athugunar í nefndinni hvort rétt sé að breyta því orðalagi. Aðalatriðið er að þeir sem sækjast eftir hópferðaleyfi, eigi það tryggt að fá rétta málsmeðferð sinna mála og að fljótfærni í lagasetningu standi ekki rétti þeirra fyrir þrifum.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ástæða er til að fara mjög ítarlega í ýmsar athugasemdir hv. þm. eins og t.d. þá hvort rétt sé að hafa í 2. gr. um orðskýringar: ,,Óreglubundnir flutningar eru aðrir flutningar en reglubundnir.`` Í 1. gr. núgildandi laga stendur: ,,Með óreglubundnum fólksflutningum er átt við aðra fólksflutninga en reglubundna.`` Má nú kannski vera að rétt sé hjá hv. þm. að það orðalag sé nákvæmara og beini ég því til hv. nefndar að hún taki það til athugunar.

Mér finnst líka athugandi hvort það sem hv. þm. sagði um það að í sérleyfisakstri sé sérleyfishöfum heimilt að nota bifreiðar sem rúma 3--8 farþega. Mín vegna mætti standa 1--8 farþega vegna þess að í 1. gr. þessa frv. segir um gildissvið, með leyfi forseta:

,,Lög þessi gilda um fólksflutninga á landi gegn gjaldi með bifreiðum sem rúma níu farþega eða fleiri.``

Þetta er hin almenna regla en á hinn bóginn gilda lög um leigubifreiðar um þá bíla sem minni eru og það er samhengið á milli þessara tveggja lagabálka sem veldur þessum ákvæðum.

[12:15]

Það er auðvitað álitamál hverjir eigi að koma að því hvernig standa skuli að veitingu sérleyfa. Ég hygg að það sé alveg skýrt sem hér stendur:

,,Þeir sérleyfishafar, sem hafa haft sérleyfi áður, skulu að jafnaði sitja fyrir um endurveitingu sérleyfa á viðkomandi leiðum.``

Auðvitað má segja eins og hv. þm. vill: Þeir sérleyfishafar, sem hafa haft sérleyfi áður á viðkomandi leið, skulu að jafnaði sitja fyrir um endurveitingu sérleyfa á viðkomandi leið --- ef þeir aðilar sækja um kannski viðkomandi leið í þriðja skiptið. Það fer eftir smekk hversu langur lagabálkurinn á að vera hversu oft sömu orðin eru endurtekin.

Þegar hv. þm. dregur í efa að nóg sé að fá meðmæli Sambands ísl. sveitarfélaga í sambandi við úthlutun sérleyfa hlýt ég að minna á að sérleyfi ná oft til fleiri sveitarfélaga en eins og einnig að maður skyldi ætla að Sambandi ísl. sveitarfélaga sé treystandi til að fjalla um mál af þessu tagi. Loks vil ég gera ráð fyrir því að sveitarfélögum sé almennt kunnugt um það ef sérleyfi falli úr gildi og geti þess vegna ótilkvödd komið fram sínum athugasemdum. Ég ber því ekki þann ugg í brjósti að skýrari ákvæði þurfi að þessu leyti.

Um 5. gr. er það að segja að hún er nokkuð samsvarandi 8. gr. í núverandi lögum. Sex mánaða fresturinn er t.d. í núgildandi lögum þannig að hann er ekki nýr. En á hinn bóginn hlýtur sveitarfélagið að hafa þörf fyrir einhver úrræði til þess að grípa inn í ef illa er staðið að nauðsynlegum reglubundnum fólksflutningum innan sveitarfélagsins. Hér er það úrræði fundið að gefa sveitarfélögunum kost á að þau taki sjálf ábyrgðina í sínar hendur af ríkinu og sú hugsun á bak við að sveitarfélaginu eigi að vera kunnugra um það en ríkisvaldinu hvernig rétt sé að standa að reglubundnum fólksflutningum á svæðinu. Ég hygg að það sé t.d. miklu eðlilegra að Reykvíkingar sjái sjálfir um rekstur strætisvagna hér. Akureyringar hafa nýtekið ákvörðun um að halda uppi reglubundnum fólksflutningum, svo maður noti rétt orðalag, og láta almenningsvagna ganga um helgar. Ég hygg að ekki sé nema gott um það að segja og hygg að við eigum ekki að breyta til og taka það vald af sveitarfélögunum að þau geti hlutast til um það hvernig að þessum málum skuli staðið, enda hefur engin beiðni komið frá þeim um að hafa aðra skipan á, a.m.k. ekki svo mér sé kunnugt.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta. Það er rétt hjá hv. þm. að auðvitað eru ýmis atriði í þessu frv. sem orka tvímælis. Ég veit að samgn. sem er skipuð mjög góðum og duglegum þingmönnum mun taka málið til vandlegrar íhugunar og meðferðar og vænti þess að hægt verði að afgreiða frv. á þessu þingi.