Skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 12:28:58 (1562)

1998-12-03 12:28:58# 123. lþ. 32.3 fundur 282. mál: #A skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[12:28]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir vænt um að hæstv. ráðherra er sama sinnis og ég að líta þurfi á framsetningu í 5. gr. um einkaleyfi því að ljóst er að þessi ákvæði rúma það ekki að sveitarfélag bjóði út eftir að sveitarfélag annist eða gerist rekstraraðili og fái leyfið. Sveitarfélög eru farin að spanna nokkuð vítt eftir stækkun þannig að það getur verið um að ræða alveg hliðstæðar leiðir og verið er að úthluta öðrum leyfum á. Menn skulu því gæta sín að þessu leyti þegar lögin eru sett.

Varðandi síðasta atriðið er hæstv. ráðherra heldur betur kominn inn á grátt svæði. Skýringin er sú á þessari framsetningu, sem er í grg. og er kannski ekki það sem við eigum að ganga út frá en ég hef ekki þessa reglugerð fyrir framan mig, að ljóst er að samkvæmt þessari framsetningu hæstv. ráðherra, því að frv. er hans, voru ákvæði og reglur Evrópusambandsins innleiddar í íslenska löggjöf með reglugerð númer þetta. Slík málsmeðferð gengur bara ekki upp, hæstv. forseti, ekkert frekar þó að viðkomandi þingnefnd hafi verið sýndur textinn. Þannig afgreiðum við ekki lög. Það eru engin fyrirmæli um það eða skýrar reglur að þingnefndir fái að sjá reglugerðir. Það hefur oft verið rætt á Alþingi og í þingnefndum hvort ekki væri skynsamlegt að þingnefndir fái að sjá drög sem meginreglu, a.m.k. í þýðingarmiklum málum en ekkert slíkt er bókað í þingsköpum eða í reglum sem við vinnum eftir. Þetta vildi ég taka fram.