Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 13:40:49 (1569)

1998-12-03 13:40:49# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[13:40]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni veigamikið mál sem er tillaga til þál. um hafnaáætlun næstu fjögur árin. Það er óhjákvæmilegt annað en gagnrýna það strax við fyrri umræðu máls hversu seint fram komin þessi tillaga er. Nú er komið fram í desembermánuð. Það er 3. desember. Fyrirliggjandi eru fjárlög sem taka til hafnarframkvæmda á næsta ári, en samkvæmt laganna hljóðan er þinginu gert að endurskoða hafnaáætlun á tveggja ára fresti og að leggja upp með nýjar og breyttar áherslur strax á næsta ári. Því er ljóst að ef þingið ætlar að koma að því verkefni eins og lög standa til þá þarf að ljúka umfjöllun hafnaáætlunar í þessum mánuði, þegar örfáir starfsdagar eru eftir af þinginu fyrir jólaleyfi þess.

Það eru engin efni til þess að svona er í pottinn búið. Það kemur fram í greinargerð með till. að vinna við þessa endurskoðun hófst í febrúar. Þá voru send erindi til viðkomandi hafnarstjórna og einnig strax að afloknum sveitarstjórnarkosningum í júnímánuði. Það má því ætla að tillagan hafi verið til umfjöllunar í ráðuneytinu frá því um mitt sumar og til dagsins í dag. Það vekur upp þær spurningar hvort einhver vandamál eða áherslubreytingar hafi verið svo veigamiklar í meðförum ráðuneytisins að þær réttlæti alla þessa töf. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað það hafi eiginlega verið sem orsakaði það að þessi hafnaáætlun kom ekki til kasta þingsins strax í upphafi þess, í byrjun október eins og eðlilegt hefði verið. Þessi vinnubrögð gera það að verkum að möguleikar samgn. til að fara rækilega yfir málið, kalla eftir eðlilegum athugasemdum og ábendingum sveitarstjórnanna og hafnarstjórnanna vítt og breitt um landið, verða þrengri en ella. Hér er því um alvarlegt mál að ræða.

Sökum þess að einungis eru gefnar átta mínútur til að ræða þetta viðmikla mál verð ég að stikla á stóru og nefna aðeins örfá atriði til sögunnar. Ég hlýt að gagnrýna það mjög ákveðið og harðlega og mun taka það upp í meðferð málsins í samgn. að þrjár hafnir í næsta nágrenni við Reykjavík eru algerlega skornar út úr þessari áætlun. Þær hafnir eru hreinlega ekki með þegar kemur að úthlutun fjármuna til hafnargerðar. Hér er ég að vísa til Kópavogshafnar, en þar hefur talsvert umsvifamikil uppbygging átt sér stað nú þegar og Kópavogsbær og hafnarstjórn Kópavogs hafa aftur og aftur sótt á gagnvart ríkisvaldinu um að það bæjarfélag fái sína eðlilegu hlutdeild og sinn eðlilega fjárhagsstyrk í samræmi við lög þar að lútandi. Því hefur ævinlega verið hafnað og það er gagnrýnivert. Sama gildir um Garðabæ, en þar hafa hafnarframkvæmdir verið í gangi á árum áður. Þar vantar hins vegar enn fjármuni til að ljúka þeim framkvæmdum, fara í dýpkanir sem mundu styrkja mjög verulega þá starfsemi sem til staðar er á hafnarsvæðinu og þá einkanlega hjá Norma og lýtur að skipaviðgerðum. Það er fullkomlega gagnrýnivert og engin efnisrök standa til þess að Garðabær skuli skorinn út á þennan hátt.

[13:45]

Kem ég þá að þriðja sveitarfélaginu, Hafnarfirði, sem er auðvitað gamalgróin höfn, með þeim elstu á landinu, þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað. Ég vil vekja athygli á því að í gildandi hafnaáætlun er fjármunum haldið til haga til uppbyggingar á svæði Hafnfirðinga. Hafnfirðingar tóku þá ákvörðun að breyta forgangsröðun og fóru fyrst í annað stórverkefni en það sem gildandi áætlun segir til um og eðlilegt hefði verið að skrifstofa hafnamála og ráðuneytið hefði rætt það við yfirmenn hafnamála í Hafnarfirði hvernig ríkisvaldið kæmi að þeirri uppbyggingu. Ég vek sérstaklega athygli á því, virðulegi forseti, sem ég gerði raunar líka fyrir tveimur árum, að bæði í Garðabæ og Hafnarfirði er verið að ræða um uppbyggingu sem lýtur að skipaviðgerðum. Annars vegar aðstöðu fyrir skipakví og hins vegar dýpkun til að hægt sé að taka upp skip til viðgerðar í Garðabæ. Fyrir örfáum árum beitti hæstv. samgrh. sér sjálfur fyrir því að verulegum fjármunum, tugum ef ekki hundruðum milljóna kr. var varið til sambærilegra verkefna í hans eigin kjördæmi og þá er ég að vísa til Akureyrar. (Gripið fram í: Það er ekki satt.) Þetta er dagsatt og þarf ekkert að velkjast í vafa um það. Það veit hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sem fylgist vel með á þessum vettvangi og þarf ekki að rifja það upp. Hér gildir bara hið fornkveðna, hvar er jafnræðið þegar að þessu kemur? Hér er því haldið fram, aftur og aftur og enn á ný í máli hæstv. ráðherra að þær hafnir sem ég geri hér að umtalsefni séu sérstakar samkeppnishafnir Reykjavíkur. Það veit hver einasti maður sem fylgist með í þessu sambandi að Reykjavíkurhöfn ber ægishjálm yfir aðrar hafnir og á síðari árum, a.m.k. svo lengi sem ég hef fylgst með, hefur það aldrei verið uppi við af hálfu Reykjavíkurborgar af neinni alvöru skulum við segja, að hún njóti ríkisstyrks. Afkoma hafnarinnar er með þeim hætti, veltan er svo mikil og sérstaða Reykjavíkur sem höfuðborgar og viðskiptamiðstöðvar er þannig að aldrei hefur verið látið á það reyna. Og að halda því fram að þær litlu hafnir sem ég nefni hér til sögunnar og sérstaklega þær tvær fyrrnefndu, Kópavogur og Garðabær, séu í sérstakri samkeppni við þennan risa sem er Reykjavík, er auðvitað fjarri lagi.

Víkur þá sögunni til Hafnarfjarðar. Það má halda því fram með vissum rökum að þar sé einhvers konar samkeppni í gangi þótt hún sé þá náttúrlega með mjög undarlegum formerkjum þegar horft er á stærðarmismun þessara hafna. En má þá ekki á nákvæmlega sama hátt halda því sama fram um stóru hafnirnar úti um land --- lítum t.d. til Akureyrahafnar sem hefur skilað mjög góðri afkomu og það er þakkarvert, Vestmannaeyjahöfn skilar einnig mjög góðri afkomu og það er þakkarvert --- að þær verði skilgreindar sem samkeppnishafnir hér og þar? Þetta eru bara rök sem gilda ekki. Ég get ekki látið hjá líða að segja, því ég tók eftir að hv. þm. Kristján Pálsson ætlar að blanda sér í þessa umræðu á eftir, og flokksbræður hæstv. ráðherra fóru mikinn ekki fyrir margt löngu í prófkjörsbaráttu þar sem lofað var á báða bóga og alla kanta, endurbótum og betrumbótum í kjördæminu og kannski engin ástæða til annars, að fylgst verður gjörla með því hvort þeir ætla að láta þetta ranglæti ganga yfir þessi sveitarfélög. Það er rétt að nefna það líka að í ítarlegri úttekt sem fram kom í umræðum um byggðamál að Reykjaneskjördæmi hefur verið skilið eftir, hefur hreinlega verið skilið eftir þegar kemur að málum af þessum toga, ekki eingöngu í hafnamálum heldur í fleiri málaflokkum. Við þetta verður ekki unað, virðulegi forseti.

Ég hefði auðvitað þurft að segja langtum mun meira um þetta mál en ég vil halda þessu mjög ákveðið til haga hér, að við það verður ekki unað að hagsmunir Reykjaneskjördæmis, þ.e. nyrðri hluta þess, verði jafnhrikalega fyrir borð bornir og þessi tillaga hæstv. ráðherra, ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða allra ber merki um.