Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 13:54:08 (1572)

1998-12-03 13:54:08# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[13:54]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er að tala á þeim nótum hvar skynsemin eigi að ráða. Ég spyr hv. þm.: Finnst honum eðlilegt að byggð sé upp stórskipahöfn í Kópavogi? Ég skil vel hvað hann á við þegar hann talar um að byggja upp aðstöðu vegna skipasmíða eða skipaviðgerða í Garðabæ. En er eðlilegt að við séum að byggja upp stórskipahöfn í Kópavogi? Það kann vel að vera að það sé eðlilegt Kópavogsbúa vegna, en er það eðlilegt skynseminnar vegna? Og þegar verið er að tala um að Reykjavíkurhöfn sé safnhöfn, þá má kannski spyrja: Væru farmgjöldin öðruvísi ef skipafélögin sjálf fengju ekki að leita hagkvæmni í rekstri? Það eru ekki Reykvíkingar sem hafa beðið útgerðirnar um að gera Reykjavík að safnhöfn. Það er samkeppnin, flutningsmátinn og hagkvæmnin sem hefur ráðið því. Ég hef ekki og er ekki að tala til dreifbýlisins eins og það eigi ekki tilverurétt en þetta hefur þróast þannig eins og fram hefur komið áður hjá hæstv. samgrh. og birst hefur í þeirri stefnu sem ríkt hefur í þessum málum. Og ég veit ekki betur en þingmenn hafi að meginhluta til tekið undir það að búa til einhvers konar hafnasamlög þar sem hagkvæmnin á að blómstra. En þegar verið var að tala um hafnasamlög þá var verið að tala um að styrkja eina höfn annarri frekar en ég sé ekki betur en að í þessari hafnaáætlun hafi verið gerð alveg nákvæmlega sama krafa til fjármuna og áður, þannig að hafnasamlög hafa í engu breytt kröfupólitíkinni gagnvart fjármunum til að byggja upp hafnir. Það er eðlilegt að halda við en að fara í uppbyggingu á öllum höfnum án tillits til breyttra samgangna stenst bara ekki breytta tíma.