Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 14:12:10 (1577)

1998-12-03 14:12:10# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[14:12]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er náttúrlega ákaflega lítið uppbyggileg umræða. Ég verð að játa það fyrir hæstv. forseta. En mér virðist satt að segja að hv. þm. Kristján Pálsson sé með allt annað skjal í höndunum en aðrir hv. þingmenn. Veruleikinn er bara þessi:

Þrjár hafnir í norðanverðu Reykjaneskjördæmi eru ekki með þegar kemur að nýframkvæmdum. Þær eru ekki taldar styrkhæfar og í máli hæstv. ráðherra kemur fram að þannig verði það um aldur og ævi. Það er bara veruleiki málsins og spurning mín er ákaflega einföld: Styður hv. þm. Kristján Pálsson það? Styðja hv. þingmenn Sjálfstfl. í Reykjanesi þá tillögu? Það er bara já eða nei svar við því. Er það sérstakt keppikefli Sjálfstfl. að þannig skuli það vera? Þessar spurningar eru ákaflega skýrar og einfaldar.

Ég vek líka athygli á því af því að menn voru að tala um loforðalista að það er einkar athyglisvert í þessu samhengi að í prófkjöri Sjálfstfl. fyrir örfáum vikum var hv. þm. Kristján Pálsson settur niður í 5. sæti en í 2. sæti kom oddviti sjálfstæðismanna í Kópavogi og sá hélt því fram í kosningabaráttu sinni að sitjandi þingmenn flokksins hefðu ekki staðið sig í stykkinu. Það skyldi þó aldrei vera að kjósendur hafi verið að kvitta fyrir þá skoðun Gunnars Birgissonar sem skipar nú 2. sætið á lista flokksins og það birtist síðan aftur í hugsanlega einhverjum hefndaraðgerðum. Ég veit það ekki. Manni dettur ýmislegt í hug. En spurningin er bara þessi: Eru þingmenn Sjálfstfl. sammála tillögum hæstv. ráðherra þegar kemur að þessum verkefnum eða verkefnaleysi, núll krónunum sem veittar eru til þessara þriggja hafna? Það er spurningin. Ég bið um einfalt já eða nei svar.