Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 14:14:19 (1578)

1998-12-03 14:14:19# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[14:14]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það kastar nú tólfunum þegar hv. þm. er að tala um uppbyggilegar umræður og blandar saman prófkjörinu og þeirri hafnaáætlun sem hér er til umræðu. Ég ætla bara að minna hv. þm. á það að ég hafnaði í 5. sæti í prófkjörinu og var í því sæti fyrir. Ég spyr svo að því hvort hann hafni í því sama sæti og hann er í núna eftir næsta prófkjör, það á eftir að koma í ljós. Aftur á móti óska ég honum alls góðs í því.

Ég hef ekki haft í huga neinar hefndaraðgerðir gagnvart Kópavogi, hv. þm., og frábið mér allar slíkar yfirlýsingar af hálfu þingmanna yfirleitt. Ég hef aftur á móti séð fyrir mér að forgangsröðun framkvæmda í Reykjaneskjördæmi sé jafnmikilvæg og annars staðar á landinu og mikilvægustu hafnirnar sem hafa setið eftir eru höfnin í Grindavík og höfnin í Sandgerði. Ég get þá alveg eins spurt hv. þm. að því hvort hann sé á móti því að Grindvíkingar og Sandgerðingar fái þessar hafnarbætur. Er hv. þm. í rauninni að segja að hann vilji ekki að fjármunir renni til þessara hafna heldur renni þessar fjárveitingar til Hafnarfjarðar og Kópavogs? Ég spyr hv. þm. að því, spyr sá sem ekki veit. Mér finnst það koma í rauninni glöggt fram hjá hv. þm. að hann er að mótmæla því að þessar framkvæmdir fái forgang og það er gott að kjósendur á Suðurnesjum heyri þá afstöðu þingmannsins úr þingsölum að þetta eru skilaboð hans.

Kópavogsbúar hafa lengi gert sér grein fyrir því að þeir eru í samkeppni við aðrar hafnir og við Reykjavík um það að fara þar af stað með nýja höfn. Þeir hafa viðurkennt það. En aftur á móti eins og ég sagði áðan styð ég að þarna sé byggður garður til þess að hægt sé að þjónusta skip og nýta þá iðnaðaraðstöðu sem búið er að byggja upp í Kópavogi.