Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 14:16:35 (1579)

1998-12-03 14:16:35# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[14:16]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ákaflega er það hvimleitt þegar ágætir vinir mínir og félagar, hv. þingmenn dreifbýlisins, koma upp og hafa orð á því, eins og síðasti ræðumaður hv. þm. Kristján Pálsson, að nauðsynlegt sé að draga úr mikilvægi Reykjavíkurhafnar. Eins og það sé mikilvægt. Má þá segja, ja skítt með alla hafnaáætlun bara ef tekst að draga úr mikilvægi Reykjavíkurhafnar?

Fæstir hafa gert sér grein fyrir því, eins og hv. þm. kom að vísu réttilega inn á hér áðan, að skipum í eigu Íslendinga og í leigu hjá íslenskum skipaútgerðum hefur fækkað. Þau hafa hins vegar stækkað og farmgjöld hafa lækkað. Menn sem eru í innflutningi segja mér að nú séu farmgjöld farin að skipta litlu máli, nánast engu og orðin innan við 1% af heildarkostnaði af vöru sem kemur til landsins.

Hvers vegna skyldi það nú vera? Það er vegna hagkvæmni stærðar skipanna. Þau flytja meira, eru stærri og síðast en ekki síst þá hefur við Reykjavíkurhöfn verið byggð upp afar hagkvæm losunaraðstaða sem fært hefur öllum landsmönnum umtalsvert fjármagn. Vöruverð hefur þá lækkað í samræmi við lækkandi farmgjöld og lækkandi losunarkostnað.

Í guðanna bænum leggið nú af þennan leiða vana ykkar að tala um að nauðsynlegt sé að draga úr mikilvægi Reykjavíkurhafnar. Reykjavíkurhöfn er og mun verða mikilvægasta flutningamiðstöð þessa lands.