Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 14:25:56 (1583)

1998-12-03 14:25:56# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[14:25]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta hefur verið athyglisverð umræða. Þegar kemur að vegamálunum og hafnamálunum verður landafræðin mjög áberandi í þingsalnum og ekki óeðlilegt. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það er ekki óeðlilegt, sérstaklega ekki með tilliti til þess að verið er að skipta fé sem er af skornum skammti. Þá er litið til landsvæða, atvinnuhátta og uppbyggingar og sýnist sitt hverjum.

Það er umhugsunarvert að land sem byggir jafnmikið á sjósókn og okkar land, þar sem er jafnmikið um vöruflutninga og umsvif, er með jafnmikið af smábátum eins og okkar, leggi innan við 800 milljónir til hafna, bæði til nýframkvæmda og til uppgjörs. Það vekur spurningar að liðlega 500 millj. kr. skuli varið til framkvæmda á þessu ári. Ég held að við ættum að staldra við forganginn í fjárlögum okkar og hvernig við förum með alla þá þætti sem máli skipta á sama tíma og talað er um sólskinsfjárlögin og rekstrarafganginn.

Herra forseti. Ég ætla að gefnu tilefni að byrja á að nefna Sandgerði og Grindavík og suðurhafnirnar í Reykjaneskjördæmi og vegna orða Kristjáns Pálssonar. Í Sandgerði og Grindavík hafa skapast sérstakar aðstæður sem ég hygg að allir þingmenn þekki, hvort sem þeir eru frá því landsvæði eða öðru. Þar hefur verið ráðist í stór verkefni sem líkja má við að ráðast í jarðgöng í vegakerfinu sem engum, ekki nokkrum manni hér á Alþingi né annars staðar dytti í hug að unnt væri að fjármagna af vegafé. Það dettur ekki nokkrum manni í hug að fjármagna jarðgöng af vegafé. Það eru sértæk verkefni sem menn vita að verður að taka fyrir utan hið takmarkaða vegafé.

Það gildir sama með svona stór verkefni eins og í Sandgerði. Það var fyrra stóra verkefnið sem við réðumst í, og svo Grindavík, þetta eru sérstök verkefni og miklar framkvæmdir sem verður að standa að á tiltekinn hátt. Ég ætla að minna á að þó að farið væri í þessi stóru verkefni hvort á eftir öðru á suðursvæðinu þá hvarflaði ekki annað að okkur þingmönnunum en að gera ákveðna tilhliðrun út af Helguvík þegar til kom. Við skulum bara minnast þess að þingmenn jafnaðarmanna stóðu sig í stykkinu þá --- við skulum hafa það á hreinu --- varðandi þessari hafnir, Sandgerði, Grindavík, Helguvík. Á það skorti ekki.

[14:30]

Herra forseti. Ég vissi það ekki þá og ég hef ekki vitað það fyrr nú þegar það er kannski að verða ljóst að það væri bara eitt svar við því hvort verða eigi við beiðnum um fjárframlög til litlu hafnanna á norðursvæðunum, að það svar væri: ,,Aldrei, aldrei.`` Það sýnist mér að sé að verða raunveruleikinn miðað við þá umræðu sem hefur farið fram á liðnum árum, miðað við svörin sem maður hefur fengið ef maður hefur verið með fyrirspurnir í þessum málaflokki og miðað við stefnu sjálfstæðismanna. Ég hef að sjálfsögðu lúmskt gaman að því að sveitarstjórnarmennirnir í Sjálfstfl. trúa því að þingmennirnir hafi eitthvað að segja um skiptingu fjármagns til hafnanna. Þeir trúa því. Bæjarstjórnarmeirihlutinn í Kópavogi trúir því að þingmenn hafi einhver áhrif. Við eigum von á því að einn nýr þingmaður komi að vori inn á þing og sá þingmaður trúir því að hann geti bara kippt í liðinn ýmsum stórum málum sem hafa beðið. Hann heldur að hann geti tvöfaldað Reykjanessbrautina og hann ætlar örugglega að kippa í liðinn svona smámálum eins og hafnarmannvirkjum á norðursvæði Reykjanesskjördæmis. Ég held að það væri þarft verk fyrir flokkinn að setjast með sínum mönnum og láta þá vita það að svona gerast ekki kaupin á eyrinni. Þá er a.m.k. ljóst að viðkomandi sleppur við að fara í þá tegund kosningabaráttu fyrir kosningarnar í vor.

Herra forseti. Það kom fram hjá Guðmundi Hallvarðssyni ...

(Forseti (GÁ): Hv. þm.)

... hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að hér ætti ekki að fara að byggja upp stórar hafnir og að nægjanlegt framboð væri á höfuðborgarsvæðinu og ekkert þyrfti að gera meira. Því spyr ég: Á að láta Reykjavík eftir alla uppbyggingu norðurfrá? Á aldrei að skoða hvort ástæða sé til að styðja sérframkvæmdir sem miðast við séraðstæður, bæði í Kópavogi og Garðabæ, svo ég tiltaki tvo staði? Hér hefur komið fram hvað hangir á spýtunni í Garðabæ, það eru skipaviðgerðirnar. Það hentar ekki Garðabæ þótt meira fé sé lagt í uppbyggingu í Reykjavík, ekki varðandi þær framkvæmdir.

Um Kópavog hefur hér farið fram alveg fáránleg umræða, t.d. um hvort Kópavogur ætli að fara að keppa við Reykjavík um stórhafnir. Þetta er fásinna. Ég bara býð þingmanninum að skjótast í Kópavoginn og skoða það sem þar hefur gerst. Þar var lítil smábátabryggja og í mörg ár hefur þar átt sér stað uppbygging enda átti fjöldi smábáta á ákveðnu tímaskeiði mjög erfitt með að fá inni í höfnum nágrannasveitarfélaganna. Allt hefur verið unnið á kostnað sveitarfélagsins sjálfs og aðstaða þarna í smábátahöfninni er til fyrirmyndar. Ekkert hefur komið frá ríkinu nema einu sinni 2 millj. og til að tryggja að þær kæmu örugglega ekki inn á hafnaáætlun voru þær kallaðar lendingarbætur, lendingarbætur í stærsta kaupstað utan Reykjavíkur. Það er ekki verið að tala um neitt sambærilegt við Reykjavík með þessum legukanti sem Kópavogur er að reyna að fá stuðning við. Það verður e.t.v., eins og hér hefur komið fram, þjónustuhöfn og gámahöfn af því að þar er landsvæði sem hentar til þess fyrir utan þjónustuna sem þar yrði.

Ef það er löngu búið að ákveða, herra forseti, að það sem fyrir er skuli þjóna þessum svæðum, að Hafnarfjörður eigi að vera höfnin fyrir norðursvæðið, þá á líka að koma betur til móts við Hafnarfjörð en ekki tala um að eingöngu samkeppnishafnir eigi að fá framlög. Og svo er stórlega mismunað miðað við sambærileg svæði og sambærilegar bæjarstærðir. Ég ætlast til að menn hafi eitthvert samhengi milli þess sem þeir segja heima í héraði og þess sem þeir bera fram í svörum á hv. Alþingi.