Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 14:40:42 (1587)

1998-12-03 14:40:42# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[14:40]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það mætti halda að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson væri í Eyrnabandinu. Ég er aldeilis hissa á málflutningi þingmannsins. Við erum ekkert að tala um Reykjavík. Við erum að tala um Reykjanes og það er þingmaðurinn sem hefur dregið Reykjavík inn í umræðuna. Við erum að benda á annað. Við erum að benda á að þörf er fyrir aðgerðir í öðrum sveitarfélögum við hafnir hafa aldrei fengið nokkurn stuðning eins og sú sem ég var að vísa til, á meðan það gerðist á árum áður að sú höfn sem hann ber fyrir brjósti fékk stuðning og það hefði ég örugglega stutt. Við erum að tala um að það geti verið hagkvæmt að líta á sértækar þarfir á einstökum stöðum þó svo, herra forseti, að verið sé að byggja upp í Reykjavík eins og mat er fyrir. Herra forseti. Ég er að vísa til svars sem ég fékk frá samgrh. þar sem hann talar um framkvæmdir og forgangsröðun ríkisins varðandi fjárframlög til hafna og segir, með leyfi forseta:

,,Við áætlanagerðina og forgangsröðun framkvæmda skal leggja til grundvallar mat á þörf fyrir framkvæmdir í einstökum höfnum, landshlutum og landinu í heild.``

Ég hef hér svarað því hvernig við þingmenn Reykjaness höfum staðið saman að mikilvægum framkvæmdum í okkar kjördæmi, í Sandgerði, í Grindavík og í Helguvík. En ég tek undir það með hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að það er hastarlegt að hafnir sem ætti að líta til og aðgerðir sem ætti að skoða skuli enga skoðun fá. Og þetta kemur bara Reykjavík ekkert við. Hún má að mínu mati byggja upp eins og henni þykir þurfa í sínu umhverfi. Ég er alveg sannfærð um að það væri þjóðhagslega hagkvæmt ef þessi litli legukantur kæmi í Kópavogi, enda mun hann koma alveg óháð þessu. Við skulum bara muna hverjir fá framlög og hverjir ekki.