Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 14:43:11 (1588)

1998-12-03 14:43:11# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[14:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessi umræða er komin inn á dálítið sérkennilegt spor, verð ég að segja. Mér finnst það athyglisvert þegar hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson fer að skamma hér af nokkrum krafti þingmenn dreifbýlisins og virðist þá aðallega eiga við hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur úr Kópavogi. Ég hafði ekki áttað mig á að svo væri komið að Kópavogur væri orðinn dreifbýli í þessum skilningi.

Ég ætla að öðru leyti, herra forseti, ekki að blanda mér mikið í deilur þingmanna Reyknesinga og Reykvíkinga um þessi mál, hafnarframkvæmdir hér á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu eins og Hafnfirðingar kjósa að kalla það af alkunnri hógværð, hvort sem það eru framkvæmdir þar eða lendingarbætur í Kópavogi eða eitthvað annað. Ég vil bara segja fyrir mitt leyti að ég held það sé búið að koma þessum málum í nokkuð sanngjarnt horf hvað varðar samkeppnisstöðu þessara hafna. Það er ósköp einfaldlega á grundvelli ákvæða í núgildandi hafnalögum að tekið er tillit til tekjumöguleika og afkomu hafnarsjóðanna þegar styrkhæfni einstakra framkvæmda er metin. Þessi mál voru hins vegar ekki í sanngjörnum farvegi fyrir svo sem eins og tíu árum síðan og það vill svo til að ræðumaður þekkir aðeins til þeirrar sögu. Þannig var að Reykjavíkurhöfn var ein hafna án nokkurra ríkisstyrkja en hafnir í nágrannasveitarfélögunum fengu í raun og veru sjálfvirkt 75% eða hvaða kostnaðarhlutfall sem það nú var sem ríkissjóður á þeim tíma endurgreiddi. Það var í kjölfar skoðunar á þessum málum sem innleiddar voru þær reglur að styrkhlutfallið gæti verið mismunandi og lægra en almenna reglan var þegar um var að ræða fjársterkar hafnir eins og t.d. Hafnarfjarðarhöfn, Akureyrarhöfn, Ísafjarðarhöfn eða aðra slíkar, enda var ekki orðið sanngjarnt að þær hefðu fullt styrkhlutfall á móts við litlar tekjulágar hafnir úti um landið, en síðan fékk Reykjavík ekkert. Nú er búið að koma þarna á skipan, formúlum, sem ég held að vegi og meti nokkuð sanngjarnt þessa stöðu eða samkeppnisstöðu hafnanna. Ég er stuðningsmaður fyrirkomulagsins eins og það er og held að menn geti sparað ræður og karp af þessu tagi hér yfir Kópavogslækinn. Mér finnst það ekki mjög frjótt.

[14:45]

Í öðru lagi vil ég, herra forseti, segja að heppilegra er að við ræðum almenna stefnumótun og fjárveitingar í þennan málaflokk og látum þá annaðhvort samgn., fagnefnd þingsins, og Siglingastofnun eftir að útfæra einstakar framkvæmdir. Ég vil þó nefna, af því að framkvæmdir á suðvesturhorninu eru á dagskrá, að ég fagna því að Grindavíkurhöfn t.d. sé loksins að komast inn á kortið. Þarna er um að ræða gífurlega mikla en um leið mikilvæga framkvæmd, bæði út frá notagildi hafnarinnar en líka frá öryggissjónarmiði þar sem verið hefur einhver varasamasta innsigling í landinu eftir að Sandgerðisinnsigling var tekin í gegn. Nú sér fyrir endann á því að menn kljúfi þann mikla kostnað sem er samfara því að sprengja rennu úr Grindavíkurhöfn og verja hana. Sama má auðvitað segja um Sandgerði. Þar eru enn fram undan mikilvægar framkvæmdir sem varða notagildi hafnarinnar og innra skipulag. Þar er auðvitað gífurleg umferð sem miklu máli skiptir að gangi klakklaust, að bátar hafi þar viðlegu og annað því um líkt.

Ég nefni þá í leiðinni, án þess að ég ætli að falla í þá gryfju að ræða einstakar framkvæmdir, þær gífurlega miklu og dýru framkvæmdir í Norðurl. e. sem skera sig nokkuð úr með dýrar hafnarframkvæmdir og miklar hafnir. Þar er mjög stór floti sem hefur sprengt utan af sér hafnir á mörgum stöðum. Það er alþekkt að t.d. togaraútgerð frá Eyjafjarðarsvæðinu og önnur sjósókn þaðan er svo mikil að um jól og áramót og í brælum er vandræðaástand. Þá eru allar almennilegar viðleguhafnir á Eyjafjarðarsvæðinu fullar af skipum. Þau liggja í bunkum, eins og við mundum segja norðanmenn, hvert utan á öðru. Þess vegna eru framkvæmdirnar hjá hafnasamlagi Eyjafjarðar á Akureyri, á Húsavík, Raufarhöfn og Þórshöfn gífurlega mikilvægar. Hinar hafnirnar hafa aftur sprungið af öðrum orsökum að segja má. Þar hafa umsvif tengd veiðum og vinnslu uppsjávarfiska valdið mikilli umferð stórra skipa sem fara stækkandi með endurnýjun flotans og kalla á dýrar framkvæmdir.

Það sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sagði um hafnasamlög tek ég ekki undir. Þvert á móti tel ég að hafnasamlögin og samstarf hafna sem þar hefur skapast hafi tvímælalaust skilað árangri. Að þess sjái ekki stað í að farið sé fram á minni fjárveitingar er í raun eðlilegt. Hafnasamlögin voru ekki stofnuð til þess að draga úr framkvæmdum. Þau voru stofnuð, annars vegar til að jafna út tekjumun hafnanna sem varð með breyttri hlutverkaskipan, breyttri verkaskiptingu milli þeirra, og hins vegar til að koma á stjórnunarlegu hagræði. Þörfin fyrir miklar framkvæmdir í þessum höfnum er þó enn til staðar. Sú þörf er hins vegar í skynsamlegra samhengi að mínu mati og gjarnan tengd áætlanagerð sem tekur mið af hlutverki hverrar hafnar fyrir sig og það er til bóta. T.d. er enginn vafi á því að sú togstreita sem ella hefði skapast, við getum tekið dæmið af Ólafsfirði og Dalvík, leysist í gegnum hafnasamlagið og tekjunum er jafnað. Þá skiptir minna máli en áður var hvort flutningaskip koma inn á aðra höfnina og fiskiskip inn á hina o.s.frv. Ekki síst í þessu liggur gildi þess að hafnirnar starfi saman og mæti þannig breyttum hlutverkum sem hafa skipast m.a. af því að vöruflutningarnir eru að þjappast á færri hafnir. Aðrar hafnir verða í staðinn hreinar fiskihafnir með annarri tekjusamsetningu.

Skipin stækka og það þurfa menn að hafa í huga. Menn standa núna frammi fyrir því að margar af gömlu höfnunum eru of litlar og eftir á að hyggja hafa sums staðar verið gerð þau mistök að hafa ytri hafnarmannvirkin of innarlega og því ekki pláss innan gömlu varnarmannvirkjanna, öldubrjótanna eða garðanna, fyrir svona stór skip. Það er ekki hægt að dýpka þær hafnir nægjanlega nema með dýrum sprengingum. Þetta leiðir til þess að á nokkrum stöðum á landinu hafa menn neyðst til þess að ráðast í gerð ytri hafnarmannvirkja sem liggja utar og geta mætt þörfum stærri skipa sem hafa meiri djúpristu. Þetta á t.d. við um Húsavík og jafnvel Hafnarfjörð þar sem stærri skip og flotkvíar og allt það dótarí kemst ekki fyrir í hinni gömlu Hafnarfjarðarhöfn. Þar af leiðandi þarf þar nýja garða, ný ytri mannvirki og á þessu þyrfti að halda víðar á landinu.

Sé litið á samþættingu samgönguþáttanna í þessu efni þá skiptir fyrst og fremst tvennt máli. Það er annars vegar samspil hafnarmannvirkjanna og afnot af höfnum og vegasamgöngur hins vegar. Það hefur alls ekki verið gaumgæft nægilega, fyrst og fremst þar sem vegirnir hafa yfirleitt ekki verið tilbúnir til að taka við hinu nýja hlutverki sem breytt samgöngumynstur á sjó hefur kallað á.

Að lokum, herra forseti, vil ég segja að ef hafnaráætlun þessi gengi eftir og við hana yrði staðið að fullu, þá væri framkvæmdastigið í höfnum landsins á þessu fjögurra ára tímabili þolanlegt. Því miður hefur þessi áætlun sama einkenni og margar slíkar vilja hafa að hún er afturbreið eða eigum við frekar að segja frammjó. Hún er ansi mjó í framendann en breið í afturendann. Fyrir það fyrsta er það aldrei mjög fallegt form, a.m.k. að mati ræðumanns. Í öðru lagi er ótryggara að afturendinn er skrifaður í skýin. Þá verður búið að kjósa, komið nýtt þing og nýjar aðstæður í efnahagsmálum. Við vitum ekki hversu vel þetta mun endast, hvorki ég né virðulegur forseti.