Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 14:51:49 (1589)

1998-12-03 14:51:49# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[14:51]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni er hér á ferðinni það viðamikið mál að ekki gefst tóm til að fara yfir alla anga og enda þess á átta mínútum. Ég vil því freista þess að reyna að drepa á nokkur atriði til viðbótar sem athygli vekja og þörf á að ræða.

Hér hefur réttilega verið bent á að samkvæmt orðanna hljóðan hefur verklag við undirbúning þessarar hafnaáætlunar verið eilítið öðruvísi en verið hefur. Fyrst er þar að nefna þá tilraun að raða upp verkefnum í samræmi við einkunnagjöf samkvæmt formúlu þar um. Þessa formúlu er að finna í athugasemdum með þáltill., ef ég man rétt. Við fyrstu sýn virðist hún flókin og vekur jafnvel fleiri spurningar en hún svarar. Þegar maður sér síðan, og ég er með það í höndunum, virðulegi forseti, hvernig það birtist í einkunnagjöfinni, þá vakna enn fleiri spurningar.

Nú dreg ég ekki í efa að starfsmenn Siglingastofnunar hafi unnið af bestu samvisku og yfirsýn en hlýt að gagnrýna að við undirbúning máls skuli samgn., sem setti saman gildandi hafnaáætlun frá 1997--2001 eða til 2000, ekki hafa verið höfð með í ráðum við þá endurskoðun og samsetningu formúlu af þessum toga. Við þekkjum svona formúlur úr vegáætlun og mönnum hefur sýnst sitt hvað um þá formúlu. Hún hefur oft verið rædd á þessum vettvangi. Auðvitað eru svona formúlur aldrei þannig úr garði gerðar að þær svari öllum álitamálum sem upp koma. Því er óhjákvæmilegt annað en samgn. verji nokkrum tíma til þess að fara yfir forsendurnar í formúlunni. Þegar maður les yfir einkunnir fyrir hinar ýmsu framkvæmdir hér og þar um landið, þá veltir maður óneitanlega fyrir sér hvort hafi komið á undan eggið eða hænan, hvort menn hafi fyrst forgangsraðað og síðan búið til formúlu utan um þá forgangsröðun eða unnið þetta algerlega akademískt og lagt línurnar fyrir fram. Nú veit ég ekkert um það og ég vil trúa því að rétt röð hafi verið á því.

Það er stórmál ef menn ætla að festa í sessi og negla niður á þessum vettvangi að forgangsraða verkefnum svona, búa til slíka forskrift. Það verk þarf að vanda mjög rækilega og ná um það allgóðri sátt í þinginu áður það verður fastsett. Ég undirstrika og tel óhjákvæmilegt annað en að nefndin fari yfir það mjög rækilega.

Hér hefur einnig borið á góma þá stefnubreytingu sem finna má í þessari tillögu varðandi hafnasamlögin. Þess er skemmst að minnast að af hálfu hæstv. samgrh. var mikil áhersla lögð á að þessi samlög yrðu að veruleika. Leiða má rök að því að hann hafi í raun veitt premíu til hafnarstjórna sem tóku sig saman, stilltu saman strengi sína og mynduðu hafnasamlög, þau hafi fengið viðbótarfjárframlag eða a.m.k. gæfulegt og vinalegt viðmót af hálfu hæstv. samgrh.

Hins vegar bregður svo við að vegna þess að hafnasamlögin hafa farið saman og velta margra þeirra hrokkið upp fyrir 100 millj. kr. markið, að það sé talin ástæða til skerðingar. Ég sé ekki samhengið þar á milli. Við þekkjum og vitum að veltufjármunir við rekstur hafna segja ekki alla sögu. Framleiðnin og afkoman er veigameiri í þeim efnum auk möguleika hafna og hafnasamlaga til að reka hafnir sínar af viti og ráðast í nýjar framkvæmdir. Ég dreg í efa, án þess að ég hafi flett því upp orð fyrir orð, að efni standi til þess í hafnalögum að sú skerðing sé heimil af þeim ástæðum, 20% skerðing vegna þess að hafnirnar heiti ekki lengur hafnir tiltekinna sveitarfélaga heldur hafnasamlög. Í hafnalögum er heimild til að skerða framlög til einstakra hafna ef afkoma þeirra er sérstaklega góð. Ég held hins vegar að ekkert standi í hafnalögum um að skerðing sé heimil vegna þess að veltan sé mikil eða lítil. Þar er auðvitað um tvo aðskilda hluti að ræða.

Burt séð frá því er það hin efnislega stefnumörkun sem hér er umhugsunarefni. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta geti haft þau áhrif að hafnir sem hafa e.t.v. að velt því fyrir sér að stofna til hafnasamlaga, geri það ekki þar sem það muni verða ávísun á skert ríkisframlag til nýrra framkvæmda. Þessu þurfum við að velta dálítið fyrir okkur og er umhugsunarefni. Ég vil því árétta að mikil vinna er fyrir höndum í þessu máli. Bara þessi tvö atriði sem ég nefni eru þannig að um varanlega stefnumörkun er að ræða sem menn munu ekki vinda svo léttilega ofan af er næsta hafnaáætlun kemur til endurskoðunar að tveimur árum liðnum. Hér er mörkuð stefna.

Þriðja atriðið, sem ég gerði að umtalsefni og átti orðaskipti við ýmsa þingmenn um, lýtur að þeirri prinsippákvörðun að tilteknar hafnir skuli ekki vera styrkhæfar. Það er stefnumörkunaratriði sem ég hygg að menn þurfi að horfa beint framan í og átta sig á að mjög sennilega mundi sú ákvörðun standa og reynast erfitt að hverfa frá henni í næstu framtíð. Grundvallaratriðin þrjú sem hér eru á ferð eru þess eðlis að við hljótum að gaumgæfa þau mjög alvarlega. Ég hef ákveðnar efasemdir um sum þeirra, meiri um einstök atriði en önnur, en öll þurfa þau yfirlegu.

Að öðru leyti tek ég undir það sem hér hefur verið sagt, að gangi þessi hafnaáætlun eftir í lengd og breidd hvað varðar heildarumfang fjármuna er það fagnaðarefni. Guð láti gott á vita ef okkur tekst að standa við þau áform því að oftar en ekki hefur reynslan verið sú að menn hafa kiknað undan loforðunum sem þar er að finna. Ég árétta að áætlunargerð af þessum toga er ónýt og verri en engin ef menn bera ekki gæfu til að standa við fyrirheitin.