Leiklistarlög

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 15:08:19 (1592)

1998-12-03 15:08:19# 123. lþ. 32.7 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[15:08]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. um frv. til leiklistarlaga frá meiri hluta menntmn.

Með frv. er lagt til að lögum um Þjóðleikhús, nr. 58/1978, með síðari breytingum, og leiklistarlögum, nr. 33/1977, með síðari breytingum, verði steypt saman í ein heildstæð lög um leiklistarmálefni í landinu. Frv. gerir ráð fyrir að ákvæði um Þjóðleikhús verði gerð einfaldari og skýrari og færð til nútímahorfs. Skipan þjóðleikhúsráðs er breytt á þann veg að fulltrúar verða ekki lengur tilnefndir af fjórum stærstu þingflokkunum og Félagi ísl. leikara heldur skipar menntmrh. þrjá án tilnefningar en tvo samkvæmt tilnefningum Félags ísl. leikara og Félags leikstjóra á Íslandi.

Veruleg breyting er gerð á skipan leiklistarráðs í þeim tilgangi að gera ráðið bæði einfaldara og skilvirkara sem ráðgefandi aðila fyrir menntmrh.

Þá gerir frv. ráð fyrir mikilsverðu nýmæli í 16. gr., sem er heimild ríkisins til að gera samninga við sveitarfélög, lögaðila, félög og stofnanir um fjárstuðning við atvinnuleikhús eða svipaða starfsemi. Við þá samningsgerð gæti menntmrn. t.d. leitað til leiklistarráðs sem ráðgefandi aðila.

Meiri hlutinn mælir með samþykkt frv. með breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Tillagan gerir ráð fyrir að þjóðleikhússtjóri skuli auk staðgóðrar þekkingar á starfi leikhúsa, eins og hæfisskilyrðin eru orðuð í núgildandi lögum, búa yfir menntun á sviði lista.

Arnbjörg Sveinsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nál. rita Sigríður Anna Þórðardóttir, Hjálmar Árnason, Tómas Ingi Olrich, Kristín Ástgeirsdóttir, Ólafur Örn Haraldsson og Árni Johnsen.