Leiklistarlög

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 15:10:32 (1593)

1998-12-03 15:10:32# 123. lþ. 32.7 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[15:10]

Frsm. minni hluta menntmn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. minni hluta menntmn. Þann minni hluta skipar auk mín hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir. Svavar Gestsson, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur nefndarálitinu og þeirri brtt. sem við berum fram.

Það frv. sem nú kemur til 2. umr. og ekki eru lagðar til miklar breytingar á af hálfu meiri hlutans er í öllum efnisatriðum sambærilegt við frv. sem lagt var fram á 122. þingi en var þá ekki afgreitt vegna gagnrýni sem kom fram á ákveðna efnisþætti þess máls. Frv. hefur nú eftir að hafa aftur verið lagt fram í haust verið til meðferðar í menntmn. Nokkrar breytingar urðu á málinu milli þinga og það sem skipti sköpum trúi ég var það að víðtækara samráð var haft um meðferð þess en áður þannig að gagnrýnisatriðum hefur fækkað. Þó standa enn eftir atriði sem minni hluti nefndarinnar telur ýmist ástæðu til að vekja athygli á eða að gagnrýna og flytja brtt. við.

Minni hlutinn telur að ekki hafi verið rökstutt nægjanlega að lög um Þjóðleikhús og leiklistarlög skuli felld saman í ein leiklistarlög.

Minni hlutinn vekur athygli á að: ,,Það er í mótsögn við þá aðferð sem viðhöfð er við t.d. löggjöf um háskóla þar sem sett eru almenn lög um háskóla og síðan sérlög um hvern skóla eftir því sem við á.``

Sama virðist vera í farvatninu varðandi útvarpslög þar sem til stendur að setja útvarpslög en síðan sjálfstæð lög um Ríkisútvarp en hafa þetta ekki í sama lagabálki.

Niðurstaða þess að hafa einungis ein leiklistarlög virðist því verða sú að Þjóðleikhúsið fái nýjan ramma um starfsemi sína í þrettán greinum en öll önnur leiklistarstarfsemi í landinu verði felld undir sama hatt í þremur greinum, samanber frv. Samkvæmt því verður einungis eitt leikhús í landinu viðurkennt í leiklistarlögum, þ.e. Þjóðleikhúsið. Þetta hafa, herra forseti, ýmsir orðið til þess að benda á og vil ég þar, með leyfi forseta, vitna í það sem Bandalag sjálfstæðra atvinnuleikhúsa hefur sagt um þetta atriði, en í umsögn þeirra segir:

,,Í frumvarpinu er öllu sósað saman. Þjóðleikhúsið eitt fær skilgreinda stöðu, en öllu þar utan er hrært saman og sett á sama bás. Vitaskuld er þetta hreinasta óráð. Að spyrða saman ólíkar greinar sviðslista, að blanda áhugamennsku við atvinnumennsku, að stuðningur við leiklistarstarf er háður smekk valdhafa, þetta eru ekki góðar hugmyndir. Það stríðir gegn allri skynsemi að þurrka út alla skilgreinda ábyrgð ríkisins.`` Spurt er í framhaldi af þessu: ,,Er frumvarp til nýrra leiklistarlaga á einhvern hátt betra fyrir leiklistina í landinu en gildandi lög?``

Herra forseti. Í svipaðan streng tekur leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur, Þórhildur Þorleifsdóttir, þegar hún sendir inn erindi vegna umfjöllunar um frv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Í öllum aðalatriðum er þetta frv. reyndar fyrst og fremst frv. til laga um Þjóðleikhús og sést það glöggt á heiti kafla frv. II. kafli heitir Þjóðleikhús, III. kafli heitir Önnur leiklistarstarfsemi. Það þýðir í raun að leiklistarstofnun eins og Leikfélag Reykjavíkur á sér ekki lengur neina stoð í lögum. Hlýtur það að teljast mjög alvarlegt mál að elsta leiklistarstofnun landsins sem er vagga allra hinna, skuli hvergi nefnd á nafn í lögum um leiklist, hvað þá að henni sé með lögum tryggt líf.``

Aðalgagnrýnin á frv. sjálft, herra forseti, hefur hins vegar verið á 6. og 16. gr. þess. Í 6. gr. er fjallað um ráðningu þjóðleikhússtjóra og sú breyting gerð frá gildandi lögum að opnað er á þann möguleika að þjóðleikhússtjóri sitji lengur en tvö ráðningartímabil.

[15:15]

Minni hluti nefndarinnar hefur farið vandlega yfir þau álitaefni sem fram hafa verið sett gagnvart þessari breytingu og skilur mætavel þá gagnrýni sem fram er sett enda var það lengi baráttumál leiklistarfólks að fá þau ákvæði inn í gildandi lög að ráðningartími þjóðleikhússtjóra yrði takmarkaður við tvö tímabil.

Minni hlutinn vill hins vegar líta til þess að bæði umræða og vinnubrögð hafi breyst þannig á undanförnum árum að rétt sé að láta reyna á ákvæði frv. Umræða og og gagnrýni er mun opnari nú en áður og í ljósi þess má ætla að þjóðleikhússtjóra verði ekki sætt frekar en öðrum sem standast ekki væntingar eða kröfur umhverfisins. Minni hlutinn styður hins vegar breytingartillögu nefndarinnar um kröfur um listmenntun þjóðleikhússtjóra, en samkvæmt frv. átti einungis að gera þá kröfu að skipaður yrði maður með staðgóða þekkingu á starfi leikhúsa. Breytingartillagan kveður á eins og hér hefur komið fram að hann hafi klárlega listmenntun.

Sú gagnrýni sem sett hefur verið fram á 16. gr. beinist í fyrsta lagi að því að grónar leiklistarstofnanir skuli ekki áfram eiga sinn sess í leiklistarlögum eins og þær eiga samkvæmt gildandi lögum.

Þannig segir í umsögn Leikfélags Reykjavíkur, herra forseti:

,,Í því frumvarpi til leiklistarlaga sem hér er óskað umsagnar um er m.a. lagt til að niður falli ákvæði í 2. gr. eldri laga, þar sem fjallað er um að Alþingi veiti árlega fé til stuðnings starfi Leikfélags Reykjavíkur.

Leikfélag Reykjavíkur, stofnað 1897, er ein elsta menningarstofnun landsins. Frá upphafi hefur það með starfsemi sinni leitast við að glæða áhuga landsmanna á leiklist og þeim listgreinum öðrum sem leiksviði eru tengdar. Það hefur kostað kapps um að efla íslenska leikritun og vera til fyrirmyndar um listrænan flutning viðfangsefna og meðferð íslenskrar tungu.

Á sinni löngu ævi hefur Leikfélag Reykjavíkur rekið leikhús í Reykjavík, staðið að stofnun Þjóðleikhúss, farið fjölda leikferða um landið, rekið leiklistarskóla, efnt til samkeppna í leikritun og rekið höfundasmiðjur, haldið uppi samstarfi við félög áhugamanna, skotið skjólshúsi yfir ,,frjálsa leikhópa``, bæði fyrr og nú, og nú síðast tekið Íslenska dansflokkinn undir sinn verndarvæng í Borgarleikhúsinu og það er næsta víst að sú glæsilega bygging væri enn fjarlægur draumur ef ekki væri fyrir fórnfúsa baráttu leikfélagsmanna.

Það verður því að teljast með ólíkindum að hér skuli komið fram nýtt frumvarp til leiklistarlaga, án þess að minnst sé þar einu orði á Leikfélag Reykjavíkur. Þetta er meiri breyting en virðist í fljótu bragði --- það segir í raun að L.R., sem nefnt hefur verið ,,vagga íslenskrar leiklistar``, á sér ekki lengur neina stoð í lögum.``

Í bókun á leikhúsráðsfundi Leikfélags Akureyrar hinn 18. febrúar í ár segir um þetta mál:

,,Leikhúsráð harmar þá róttæku breytingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir á stöðu Leikfélags Akureyrar í leiklistarlögum, þar sem 2. gr. fyrri laga er felld niður og Leikfélags Akureyrar hvergi sérstaklega getið í frumvarpi til nýrra laga.`` --- Þar er haldið áfram, herra forseti: --- ,,Hér er rétt að benda á að á þessu ári verða liðin 25 ár frá stofnun atvinnuleikhúss á Akureyri. Þar er því þegar fengin dýrmæt reynsla um rekstur listastofnunar á atvinnugrundvelli utan höfuðborgarinnar. Það er afar mikilvægt að atvinnumennska í listum á Íslandi verði aldrei einskorðuð við Reykjavíkursvæðið heldur verði hún efld með öllum ráðum á landsbyggðinni.``

Íslenski dansflokkurinn segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Íslenski dansflokkurinn heyrir undir lög um Þjóðleikhús, nr. 58/1978, og er reglugerð um Íslenska dansflokkinn, nr. 639/1991, ásamt síðari breytingum, byggð á lögum um Þjóðleikhús. Frá því að Íslenski dansflokkurinn varð sjálfstæð sviðslistastofnun árið 1991 hefur hann starfað samkvæmt ofangreindum reglum og má til sanns vegar færa að lagastoð hefði mátt vera tryggari. Því telur stjórn Íslenska dansflokksins nauðsynlegt að tilvera flokksins verði tryggð með ákvæði eða kafla í nýjum leiklistarlögum.``

Leiklistarsamband Íslands segir um þetta sama mál:

,,Miklu þykir varða að Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar og Íslenski dansflokkurinn eigi sér stoð í leiklistarlögunum. Æskilegt væri því að semja sérkafla um þessa aðila, en ekki að fella þá almennt undir III. kafla um ,,aðra leiklistarstarfsemi``.``

Hér segir áfram í umsögn Leiklistarsambands Íslands:

,,Leikfélag Reykjavíkur og Leikfélag Akureyrar: Samkvæmt frumvarpinu eru þessi rótgrónu atvinnuleikhús felld undir kaflann ,,önnur leiklistarstarfsemi``, án þess að vera nefnd sérstaklega. Leiklistarsambandið bendir á að Leikfélag Reykjavíkur hefur alla tíð þjónað öllum landsmönnum sem ein helsta menningarstofnun þjóðarinnar. Leikfélag Akureyrar hefur hins vegar skipað sess sem eina atvinnuleikhús Norðurlands og landsbyggðarinnar. Það er þessum félögum lífsnauðsyn að kveðið sé á um stuðning ríkisins við starfsemi þeirra í leiklistarlögum.``

Um Íslenska dansflokkinn segir:

,,Íslenski dansflokkurinn hefur um árabil notið framlaga sem ákveðin eru á fjárlögum hverju sinni án þess að eiga sér stoð í lögum. Leiklistarsambandið leggur eindregið til að Íslenski dansflokkurinn fái sérgrein í nýjum leiklistarlögum þar sem kveðið sé á um tilveru hans og rekstur.``

Að lokum, herra forseti, vegna þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram á það að rótgrónar eða nauðsynlegar menningarstofnanir eigi sér enga stoð í því frv. til nýrra leiklistarlaga sem hér er verið að fjalla um, vil ég vitna í það sem fram kemur um þetta efni í umsögn Bandalags íslenskra listamanna en þar segir:

,,Stjórn bandalagsins telur afar mikilvægt að í frumvarpinu sé skýrt tekið fram að þau leikhús, önnur en Þjóðleikhúsið, sem sinnt hafa leiklist á grundvelli sérhæfðrar atvinnumennsku fái fjárstuðning frá ríkinu sem ákveðinn er á fjárlögum hverju sinni. Í þeim tilfellum þar sem ríkið er aðili að samningi við aðra aðila um rekstrarstuðning yrði að sjálfsögðu um sömu upphæðir að ræða í fjárlögum og kveðið er á um í viðkomandi samningi. Þessi leikhús eru: Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar, Íslenska óperan og Íslenski dansflokkurinn.`` Áfram segir hér:

,,Leikfélag Reykjavíkur gegnir þeirri mikilvægu stöðu að vera atvinnuleikhús í samkeppni við Þjóðleikhúsið. Áhorfendur að sýningum félagsins koma alls staðar að af landinu og starfshættirnir taka mið af því. Félagið hefur nú starfað í heila öld af miklum listrænum metnaði og yrði það mikið slys ef félagið þyrfti að slá þar af vegna fjárskorts. Það yrði ekki bara skaði fyrir borgarbúa heldur landsmenn alla.

Leikfélag Akureyrar er eina atvinnuleikhúsið utan höfuðborgarsvæðisins og gegnir lykilhlutverki í menningarhlutverki á Norðurlandi. Félagið hefur sýnt ótrúlega útsjónarsemi í rekstri sínum og með miklum metnaði fært hvert stórvirkið af öðru á svið. Það hefur verið félaginu styrkur, bæði gagnvart ríkisvaldinu og viðkomandi sveitarfélögum, að um það er getið í núgildandi leiklistarlögum og breytingar þar á aðeins til þess fallnar að draga mátt úr þeim sem berjast fyrir lífi þessarar mikilvægu starfsemi.

Á síðustu árum hefur Íslenska óperan verið sá eini aðili hér á landi, sem sinnt hefur óperuflutningi með nokkuð reglubundnum hætti. Óperan fær fjárstuðning samkvæmt tímabundnum samningi við ríkið, en meiri óvissa ríkir um starfsemina þegar til lengri tíma er litið. Með staðfestingu á starfi óperunnar í leiklistarlögum yrði hægara um vik að byggja upp til lengri framtíðar.

Íslenski dansflokkurinn er eini atvinnuhópurinn í landinu á sviði listdans. Þótt flokkurinn sé ekki stór hafa sýningar hans vakið mikla athygli, bæði hér heima og erlendis. Með öflugri fjárstuðningi en nú fæst má ætla flokknum mikilvægt hlutverk í evrópskri dansmenningu og skiptir þá miklu að hann hafi fastari grunn til að standa á en nú er.

Í tillögu frumvarpshöfunda (sbr. 14. gr.) er farið mjög almennum orðum um þetta efni og ekki tiltekið hvaða einstakir aðilar eiga í hlut. Gamalgróin atvinnuleikhús eru þannig sett jafnfætis skammlífari leikhúsfyrirbærum og um leið grafið undan atvinnuöryggi þeirra listamanna sem þó eru að reyna að hafa viðurværi sitt af listsköpun sinni. Rekstur þessara húsa hangir á bláþræði og ekki er bætandi við þá óvissu sem ríkir um áframhald starfseminnar. Sérstakt ákvæði um stuðning við þau styrkir vissulega stöðu þeirra gagnvart fjárveitingavaldinu og er um leið virðingarvottur við það mikilsverða starf sem í þeim er unnið.``

Herra forseti. Þetta voru sýnishorn af þeirri gagnrýni eða af þeim álitum sem fram hafa komið vegna þeirra áforma að breyta frá gildandi lögum í þá veru sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e. þau áform að fella grónar listastofnanir út úr leiklistarlögum og að styrkja ekki frekar þær stoðir en að veikja. Einnig hefur verið gagnrýnt í þessu sambandi að ekki skuli vera gert ráð fyrir faglegu mati þegar gerðir eru samningar við rekstraraðila leiklistarstofnana eða félaga. Við þessari gagnrýni bregst minni hlutinn með brtt. við 16. gr. þar sem ríkisvaldið er skuldbundið gagnvart ákveðnum listastofnunum og kveðið er á um að það faglega mat fari fram þegar menntmrh. gerir samninga við rekstraraðila annarra leiklistarstofnana. Í gildandi leiklistarlögum segir að Alþingi veiti árlega fé til stuðnings tiltekinni leiklistarstarfsemi. Minni hlutinn í menntmn. telur að vilji Alþingis standi enn þá til þess að standa að baki grónum og mikilvægum stofnunum eins og Leikfélagi Akureyrar og Leikfélagi Reykjavíkur sem og Íslenska dansflokknum og Íslensku óperunni og að vilji Alþingis standi einnig til þess að standa að baki Bandalagi íslenskra leikfélaga, sem er hinn stóri bakhjarl alls þess áhugaleikfélagastarfs sem unnið er í landinu en eins og margoft hefur komið fram er þar í rauninni grundvöllur þess gróskumikla leiklistarlífs sem við búum við.

Minni hlutinn er sem sagt á því að sá vilji sem hefur staðið til þess að styrkja þessa starfsemi sé enn til staðar á Alþingi og sá vilji eigi að koma fram í leiklistarlögum en ekki að vera kominn undir geðþótta framkvæmdarvaldsins hverju sinni. Þess vegna, herra forseti, höfum við lagt til brtt. á þskj. 348 sem er svohljóðandi:

,,Við 16. gr.

1. Við bætist ný málsgrein er verði 1. mgr., svohljóðandi:

Alþingi veitir árlega fé í fjárlögum til eftirtalinna stofnana: Leikfélags Reykjavíkur, Leikfélags Akureyrar, Bandalags íslenskra leikfélaga, Íslensku óperunnar og Íslenska dansflokksins.

2. 2. mgr., er verði 3. mgr., orðist svo:

Menntamálaráðherra skal gera samninga við aðila skv. 1. mgr. Samningar við aðra aðila skulu gerðir að fengnum tillögum leiklistarráðs.``

Með þessari brtt. er ætlunin, herra forseti, að kveða ákveðið á um það að þær leiklistarstofnanir sem þar eru upptaldar njóti fjár af fjárlögum og að um rekstur þeirra skuli gerður samningur. Hins vegar er einnig, eins og ég gat um áðan, brugðist við þeirri gagnrýni að allt skuli vera galopið gagnvart því hvort listrænt mat er lagt á umsóknir um aðra samninga og því leggjum við til að leiklistarráði, sem á að vera til ráðuneytis varðandi úthlutun fjármagns til atvinnuleikhópa, verði einnig fengið það hlutverk eins og hér segir að gera tillögur vegna þeirra samninga sem eru gerðir við aðra aðila.