Kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 15:42:56 (1596)

1998-12-03 15:42:56# 123. lþ. 32.93 fundur 132#B kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[15:42]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Veruleikinn er sá að ástandið í þessum málum að því er varðar húsnæðismál láglaunafólks hefur aldrei um áratuga skeið verið verra í Reykjavík en það er núna. Það er af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi af þeirri ástæðu að búið er að eyðileggja félagslega húsnæðiskerfið. Það er ónýtt eins og það er. Í öðru lagi er það vegna þess að þenslan í þjóðfélaginu hefur haft það í för með sér að húsaleiga er nú hærri en hún hefur verið um áratuga skeið, þ.e. raunverð á fermetra í Reykjavík og nágrenni. Í þriðja lagi er það vegna þess að Reykjavíkurborg hefur breytt í grundvallaratriðum skipulagi félagslegra húsnæðismála sem hefur í för með sér óvissu og vanda hjá þeim sem búa í félagslegu húsnæði.

Allt þetta er með þeim hætti að ríkisstjórnin hefði auðvitað átt að taka skipulega á þessu máli tafarlaust öðruvísi en með skýrslum, bréfum og nefndarálitum og það er algerlega gagnslaust allt það sem hæstv. félmrh. var að lesa upp áðan vegna þess að það snertir ekki á vandanum eins og hann er og blasir við þúsundum láglaunafjölskyldna í Reykjavík og nágrenni um þessar mundir.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að á Íslandi er að verða til það sem hefur ekki verið til áður, hópar húsnæðisleysingja. Í Bretlandi Margrétar Thatcher voru til fyrir fáeinum árum 250 þúsund fjölskyldur sem voru húsnæðislausar og hímdu í neðanjarðarlestum og víðar á slíkum stöðum. Svipaðir hlutir eru að gerast hér. Það þekki ég vegna þess að hundruð þessara einstaklinga hafa verið að leita beint til mín á undanförnum vikum og mánuðum. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á þessu máli af því að hún tekur hvergi á því. Ég segi þess vegna, herra forseti, það hlýtur að fara svo, eins og við sögðum í umræðunum um félagslega húsnæðiskerfið fyrir skömmu, að uppbygging nýs félagslegs íbúðakerfis hlýtur að verða eitt stærsta kosningamálið á Íslandi árið 1999.