Kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 15:45:23 (1597)

1998-12-03 15:45:23# 123. lþ. 32.93 fundur 132#B kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[15:45]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mikið skelfilega var nú málflutningur hæstv. ráðherra hér áðan slappur. Og það var ekki laust við að mér fyndist ráðherrann skammast sín þegar hann var hér að tala, enda má hann það. Það er neyðarástand hjá fólki, ekki bara í Reykjavík heldur um land allt, vegna skorts á leiguhúsnæði og vegna áhrifa og afleiðinga þeirrar húsnæðisstefnu sem hæstv. ráðherra hefur rekið. Ég verð að segja að ég hef fundið fyrir örvæntingu hjá fólki tugum og hundruðum saman, öryrkjum, einstæðum foreldrum, námsmönnum og láglaunafólki. Og þær tölur sem hv. framsögumaður nefndi áðan eru síst of háar vegna þess að aðeins þeir námsmenn sem bíða eru t.d. 198 og þar af að stærstum hluta námsmenn utan af landi. Áhrifin bara í Reykjavík, sem vitað er um núna, vegna nýrrar löggjafar ráðherrans eru að 210 manns bætast við langa biðlista fólks sem bíður eftir leiguhúsnæði í Reykjavík, þ.e. 700 manns eingöngu hjá Reykjavíkurborg fyrir utan hjá Öryrkjabandalaginu og námsmönnum.

Hvað býður hæstv. ráðherra? Aðeins 120 íbúðir til að leysa vanda 700 manns sem eru hjá Reykjavíkurborg. En það eru 100 sem skipta um leiguíbúðir á ári og það þýðir að við værum sjö ár að leysa vandann bara hjá Reykjavíkurborg ef nýjar íbúðir bætast ekki við. Ráðherrann talar um 120 á næsta ári. Það er sami fjöldi íbúða og var eingöngu veitt til félagasamtaka áður en ráðherrann settist í stól félmrh. Það voru svona um 120--200 íbúðir á ári sem námsmenn, Búseti og öryrkjar fengu fyrir utan sveitarfélögin.

Herra forseti. Við erum að tala um að núna á næsta ári eru niðurgreiddir vextir til leiguíbúða. Við erum að tala um að það séu að lágmarki í landinu öllu 1.200--1.500 manns á biðlista. En verða niðurgreiddir vextir árið þar á eftir? Það veit enginn.

Ég spyr ráðherrann í lokin: Hver eru skilaboð hæstv. ráðherra til fólksins sem nú er á götunni, fólksins sem mun halda jólin í algjöru öryggisleysi varðandi sín húsnæðismál?

Hæstv. ráðherra skuldar fólki það að hann upplýsi hvað hann ætlar að gera til þess að leysa húsnæðisvanda þeirra.