Kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 15:50:20 (1599)

1998-12-03 15:50:20# 123. lþ. 32.93 fundur 132#B kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[15:50]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Kjarni þessa máls er sá að í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu í nágrannasveitarfélögunum eru langir biðlistar fólks sem bíður eftir því að fá leiguhúsnæði. Á sama tíma áætlar ríkisstjórnin einungis að veita lán til allt að 120 leiguíbúða á næsta ári. Það er nefnd að störfum, samkvæmt lögunum sem eiga að taka gildi um næstu áramót, sem á að skoða þörfina. En þessar tölur, þessir löngu biðlistar, sýna það svart á hvítu hve þörfin er gríðarleg.

Því er meginkjarni þessa máls og sú spurning sem við hljótum að beina til hæstv. félmrh., hvort ekki sé vilji til þess að bregðast við nú og veita meiri peninga til þess að hægt verði að kaupa fleiri leiguíbúðir þegar á næsta ári. Þörfin er svo gríðarleg. Við skulum ekki gleyma því að eitt af markmiðum nýrra laga var að beina fólki út á leigumarkaðinn, að efla leigumarkaðinn. En sá hægagangur sem hér er fram undan dugar auðvitað hvergi nærri.

Þessar staðreyndir sem hér hafa verið raktar um biðlista komu mjög greinilega fram í yfirferð félmn. vegna fjárlaganna. Til okkar komu fulltrúar samtaka sem standa í því daglega að reyna að bjarga sínum félagsmönnum og vil ég þar sérstaklega nefna Félag einstæðra foreldra. Þar er alveg gríðarleg neyð og hópur fólks, sérstaklega kvenna, á ekki í nein hús að venda. Með þeim breytingum sem eiga sér stað og með því að veita ekki meira fjármagn til byggingar eða kaupa á leiguhúsnæði er því verið að byggja upp stíflu sem veldur fólki ómældum vandræðum.

Því skora ég á hæstv. félmrh. að beita sér fyrir því --- 2. umr. um fjárlög er fram undan --- að ríkisstjórnin veiti meira fé til kaupa á leiguhúsnæði á næsta ári.