Kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 16:04:17 (1605)

1998-12-03 16:04:17# 123. lþ. 32.93 fundur 132#B kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[16:04]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ekki átti ég nú von á því þegar þessi umræða hófst að hv. þm. Svavar Gestsson færi að ráðast sérstaklega á Reykjavíkurborg. (Gripið fram í: Gerði hann það?) Þensla í þjóðfélaginu hefði náttúrlega komið niður á húsaleigumarkaði með einhverjum hætti þótt ekki hefði verið um neina kerfisbreytingu að ræða. Því miður eru miklir þjóðflutningar í þjóðfélaginu og fólk er að yfirgefa húsnæði sitt úti á landi og flytja á þéttbýlið á höfuðborgarsvæðinu, fyrst og fremst til Kópavogs. Langflestir til Kópavogs. Á þessu ári hafa flutt um þúsund manns til Kópavogs meðan líklega eitt eða tvö hundruð flytja til Reykjavíkur og það er undarlegt að biðlistarnir skuli ekki lengjast í Kópavogi. Þeir eru styttri samkvæmt upplýsingum hv. þm. Ögmundar Jónassonar en þeir voru samkvæmt þeim upplýsingum sem húsnæðisnefndin gaf í vor. (Gripið fram í: Það er allt í góðu lagi.) Það er ekkert í góðu lagi og það verður að bregðast við þessum vanda. Til þess að geta brugðist við honum þurfum við að fá niðurstöður nefndar Inga Vals og til þess að við vitum hvað við erum að gera. Það þýðir ekki eins og mætti ætla af málflutningi hv. stjórnarandstöðu að hér séu þúsundir manna á götunni, bókstaflega á götunni, byggju í tjöldum í besta falli. Það liggur fyrir að greiðslumatsreglugerð er tilbúin og viðbótarlánareglugerðin er tilbúin og það vita húsnæðisnefndirnar og það verða örugglega allar reglugerðir tilbúnar fyrir áramót nema ein. Ég er sannfærður um að við erum að koma upp miklu betra félagslegu húsnæðislánakerfi, sérstaklega fyrir tekjulægra fólk. Komið verður til móts við sveitarfélög í vanda og þeim verður hjálpað til að losna við íbúðirnar.

Hv. 13. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, spurði hver væru skilaboðin til fólksins sem biði í örvæntingu núna fyrir jólin. Nú veit ég ekki hvort þetta orðum aukið með örvæntinguna, ef það er örvænting ætti fólk a.m.k. að forðast að hlusta á fjas og úrtölur og heimsendaspár.