Leiklistarlög

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 16:23:09 (1607)

1998-12-03 16:23:09# 123. lþ. 32.7 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[16:23]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bregðast við síðustu orðum hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur og mótmæla því að með þessari lagasetningu sé eingöngu verið að styrkja Þjóðleikhúsið. Markmið frv. er orðað á þennan veg í 1. gr., með leyfi forseta:

,,Markmið laga þessara er að efla íslenska leiklist og aðrar sviðslistir og búa þeim hagstæð skilyrði.``

Varðandi umfjöllun hennar um að farin verði sú leið sem boðuð er í frv., þ.e. að skilgreina styrkhæfa starfsemi en ekki tiltaka einstaka aðila sem skylt sé að styrkja, þá er ekki með nokkru móti hægt að túlka það svo að draga eigi að úr fjárframlögum til leiklistarstarfsemi. Ég get ekki með nokkru móti komið því heim og saman. Upptalningin í gildandi lögum er hluti af liðnum tíma og ber hans merki. Það að upptalningin er felld niður er fyrst og fremst tæknileg breyting og það er í engu hægt að túlka hana þannig að verið sé að draga úr framlögum til leiklistarstarfsemi. Þvert á móti miðar þessi lagasetning að því að styrkja leiklistarstarfsemi í landinu.